Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

Húsnæðismál.

[16:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mjög mikilvægur málaflokkur að hafa þak yfir höfuðið, sá mikilvægasti ef eitthvað er, alla vega hérna á Íslandi. Hérna hefur ráðherra talað um skyldur sveitarfélaga en sveitarfélögin eru mjög mörg. Hvaða sveitarfélag ber ábyrgð á því að dekka mannfjöldaþróunina, fjölgun mannfólks sem er umfram spár? 11.000 var talað um hér að fjölgunin hafi verið á ári þegar búist var við mun minni fjölgun. Hvaða sveitarfélag á að dekka mismuninn? Það er ekkert eitt sveitarfélag sem bara tekur ákvörðun um það: Það er mín skylda að gera það. Fjárhagsstaða sveitarfélaganna er ekki á þeim stað að þau hafi fjárfestingargetu til þess bara að skella í nokkur þúsund íbúðir í viðbót. Það virkar ekki þannig. Sú samræmingarábyrgð er á stjórnvöldum. Hún hlýtur að vera það, getur ekki verið annars staðar. Við erum að tala um þessa verðbólguþróun sem er búin að vera. Það stefnir í það að hún fari eitthvað lækkandi vegna þess að stóra verðbólguskotið kom fyrir u.þ.b. ári síðan. Bara ef verðbólga hækkar eitthvað miðað við meðaltal á næsta ári þá endum við í eitthvað í kringum 8% verðbólgu. Verðbólga hækkaði um 0,6% í síðasta mánuði en á sama tíma hækkaði vísitala húsnæðisverðs um 1,8% — þrefalt hærra heldur en meðaltal verðbólgunnar. Það er enn þá þessi undirliggjandi vandi að húsnæðisskorturinn er að knýja áfram hækkun verðbólgu. Við erum búin að reka á undanförnum árum ákveðna byggðastefnu sem byggist á gróðastarfsemi, það er í rauninni ekkert flóknara en það þegar allt kemur til alls, og við öll hin borgum fyrir það í verðbólgunni.