Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 103. fundur,  8. maí 2023.

hvalveiðar.

[15:41]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég túlka það að ráðherrann vilji safna sem breiðustum upplýsingum og að það eigi að leita til fagráðs varðandi framhaldið sem svo að allar hugmyndir um endurnýjun, um framlengingu til annarra fimm ára, séu algerlega upp í loft þannig að Hvalur hf. geti reiknað með að ekki verði gefin út leyfi fimm árin eftir næstu áramót. Hæstv. ráðherra sagði það vandkvæðum háð að afturkalla leyfi yfirstandandi árs. En vegna þess að við sjáum hvalveiðibátana nú bara í slipp þessa dagana, hér rétt handan við holtið, þá verð ég að endurtaka spurninguna. Hún er skýr. Hún snýst ekkert um vandkvæði í framtíðinni. Hún snýst ekkert um breiðan grunn. Hún snýst um það að fjórðungur hvala sem voru veiddir á síðasta ári voru pyntaðir. Varúðarreglan segir okkur að hér þurfi að taka í handbremsuna. (Forseti hringir.) Mun ráðherra sjá til þess að hvalveiðar fari ekki fram á þessu ári?