153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

Skaðaminnkun.

[14:43]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Í þessari umræðu er varpað ljósi á það hversu skakkt það er að refsa fólki sem er háð vímuefnum. Við virðumst enn haldin þeirri ranghugmynd að fangelsisvist og refsingar séu góð leið til að stýra hegðun fólks þrátt fyrir að liðnir séu áratugir og jafnvel farið að telja í árhundruðum síðan við áttuðum okkur á því að svo er ekki. Það að skilja ástæður athæfis fólks og ráðast að rót vandans er ekki einungis mannúðlegra og meira í samræmi við þá þekkingu sem við höfum heldur beinlínis vænlegra til árangurs. Í umræðum um afglæpavæðingu vímuefna er áhyggjum gjarnan lýst af því að neysla vímuefna myndi aukast. Í þeirri umræðu vantar fókusinn á það hvers vegna neysla vímuefna er álitin vandamál. Það að fólk neyti vímuefna yfir höfuð er ekki vandamálið heldur mögulegar afleiðingar neyslunnar, beinar og óbeinar, á heilsu einstaklingsins sjálfs eða á samfélagið í kringum hann. Vímuefnaneysla er þannig ekki vandi sem er þess eðlis að koma þurfi í veg fyrir að fólk komist í vímu með öllum tiltækum ráðum, það er skaðinn sem neysla vímuefna getur valdið sem við þurfum að koma í veg fyrir. Það gerum við einfaldlega ekki með refsingum. Fólki sem býr við erfiðar félagslegar aðstæður, fólki sem hefur lítið eða ekkert bakland er hættara við að lenda í viðjum fíknar. Fíkni á líka oft rætur að rekja til áfallasögu einstaklinga. Afglæpavæðing snýst um skaðaminnkun. Ef fólk er nú þegar komið á þann stað að leita lausnar í heimi vímuefna þá gefur augaleið að það að lenda í viðjum refsikerfisins er ekki leiðin út, þvert á móti. Ef eitthvað þá gera refsingar, sér í lagi fangelsisrefsingar, illt verra, þær auka jaðarsetningu fólks og geta haft alvarleg áhrif á framtíð fólks og tækifæri. Það þarf að ráðast að rót vandans en ekki afleiðingar hans. Fólk þarf að geta fengið stuðning þegar á reynir en í staðinn erum við að nálgast félagsleg vandamál með refsikerfinu, (Forseti hringir.) sem ekki er einungis gagnslaust til þess að ráða bót á vandanum heldur beinlínis skaðlegt. Við búum við kerfi sem beinlínis refsar fólki þegar það þarf á hjálp að halda og því þarf að breyta.