154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[12:12]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni kærlega fyrir þessar vangaveltur sínar og spurningu, þetta andsvar. Ég hef heyrt hv. þingmann koma inn á þessar vangaveltur sínar áður í fjárlaganefndinni og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við tökum þessa umræðu núna í vetur. Ég held að við verðum að gera það og ég bara kalla eftir því að við tökum hana í nefndinni. Það er rétt að almannatryggingar lögum samkvæmt, eins og ég kann þetta, eiga að fylgja þróun verðlags en eru á eftir varðandi þróun launa. Það er rétt sem hv. þingmaður kom inn á, að við höfum verið að bæta og breyta eftir á, eftir verðlagsþróun inn í almannatryggingarnar en eftir situr réttilega 11,82% munur. Ég leysi þetta mál ekki hér með þingmanninum í þessum sal núna en bara fagna fyrirspurninni og treysti á að við tökum umræðu um þetta með réttum ráðuneytum og undirstofnunum í fjárlaganefnd í vetur.