154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:05]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa orðræðu sem hér er að eiga sér stað, hún er um margt áhugaverð og skiptir okkur miklu máli að vel takist til. Mig langar aðeins að fjalla um séreignarsparnað sem varð til á sínum tíma í gegnum kjarasamninga vegna þess að það var ekki talið nægjanlegt að fólk væri að safna sér 54, 55% í lífeyrissjóð af heildarævitekjum. Það myndi ekki duga til og þess vegna þyrfti að koma til aukinn sparnaður sem fékk síðan nafnið séreignarsparnaður eða viðbótarlífeyrissparnaður. Það var bara af hinu góða að fólk gæti safnað sér til viðbótar fyrir hin seinni æviár þannig að auðveldara yrði að komast af, það dygði kannski ekki fyrir manneskju sem hefði haft, við getum nefnt 700.000 kr. í laun og fengi ekki nema helminginn af því eða rúmlega það í lífeyristekjur þegar komið væri á hin efri ár. Það sem hefur síðan gerst í millitíðinni er að það er búið að heimila það að nota séreignarsparnað til að greiða inn á íbúðalán. Staðan er í raun og veru sú að margir sem hafa valið þá leið að greiða inn á íbúðalán eru orðnir uppiskroppa með sinn séreignarsparnað en eignamyndun í íbúðinni hefur engin orðið. Þá veltir maður fyrir sér, í þessari stöðu, að þetta getur verið góð leið í stöðugleika en skelfileg leið þegar staðan er eins og við erum að upplifa núna. Það er greinilega verið að færa séreignarsparnaðinn frá vinnandi fólki til þeirra sem eiga lánin. Maður veltir því fyrir sér: Hver á séreignarsparnað unga fólksins í dag?