154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:49]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði um að framlög til umhverfismála hækkuðu ekki jafn mikið og hún vildi sjá í þessu fjárlagafrumvarpi. Mig langar að rekja tölurnar aðeins upp og spyrja hv. þingmann hvort sé ekki nær sanni að segja að framlögin séu að lækka. Í greinargerðinni í fjárlagafrumvarpinu stendur á síðu 133 að framlög til umhverfis- og orkumála aukist um 5,8 milljarða frá síðasta fjárlagafrumvarpi. Það er eftir að búið er að millifæra 7,5 milljarða sem áður voru á gjaldahlið. Þannig að þessi tilfærsla á framlögum sem voru til staðar þá þegar er notuð til að fela það að bein framlög til málaflokksins eru að dragast saman um 1,7 milljarða. Því til viðbótar eru þessir 7,5 milljarðar til hreinorkubíla lækkun frá þeim 12,3 milljörðum sem voru í ívilnanir gjaldamegin. Ég er alveg sammála því að það megi endurhugsa stuðning við kaup á hreinorkubílum, þó það nú væri, en það þarf að gera eitthvað með þann pening sem er klipinn frá. Þarna erum við að tala um 4,8 milljarða til viðbótar. Þarna er verið að rifa seglin og draga saman samanlagt um 6,5 milljarða, sem eru minni framlög til grænna umskipta. Svo gæti maður velt því fyrir sér, en við höfum náttúrlega ekki forsendur til þess vegna þess að loftslagsmat hefur ekki farið fram á þessu frumvarpi, hvort hækkun á notkunarhlið hreinorkubíla væri eitthvað sem ætti að flokka sem samdrátt, sem ætti að flokka sem „anti“-græna aðgerð. Auðvitað þurfum við að koma á einhvers konar föstu formi á þetta en þar erum við að tala um 6 milljarða í viðbót. Ef þetta væri allt lagt saman þá allt í einu núllast út öll hækkun sem hefur átt sér stað í þessum málaflokki frá árinu 2021. (Forseti hringir.)

Mig langar að spyrja hv. þingmann, en höldum þessari gjaldtöku á notkun til hliðar, ég er ekki alveg sannfærður um hana, (Forseti hringir.) það er verið að draga niður bein framlög til umhverfismála og það er verið að lækka ívilnun til kaupa á hreinorkubílum án þess að eitthvað annað komi í staðinn: (Forseti hringir.) Hvað skýrir þessa 6,5 milljarða lækkun í orkumálum og umhverfismálum?