154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:58]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka h. þingmanni fyrir ræðuna. Hann fór um víðan völl eins og gera mátti ráð fyrir. Hann talaði m.a. um hagræðingu í rekstri og ekki ætla ég að gera lítið úr því þegar það er mögulegt og skaðar kannski ekki önnur yfirmarkmið stjórnvalda. Eitt af því sem hefur verið mikið rætt núna í haust er áform mennta- og barnamálaráðherra um sameiningu tveggja framhaldsskóla á Akureyri. Báðir skólarnir hafa í sjálfu sér staðið frammi fyrir því að fjárveitingar hafa vart dugað, ekki einu sinni fyrir hefðbundnu skólastarfi og hvað þá fyrir skólaþróun eða tækjakaupum. Í menntaskólanum t.d. er uppsafnaður halli fyrst og fremst vegna þess að það voru fleiri sem uppfylltu inntökuskilyrðin en það fylgdi ekki fjármagn og það ber að halda því til haga að yfirlýst markmið stjórnvalda er að fjölga, hækka þá prósentu af ungmennum sem sækja framhaldsskóla, fyrir utan auðvitað að okkur fjölgar í landinu.

Ráðherra kynnti áform um sameiningu undir yfirskini framfara og gæðasóknar í skólastarfi en það kom fljótlega í ljós að hann var rekinn til baka með það, viðurkenndi að þetta snerist um skort á fjármagni. Hann staðfesti það í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra í gær þar sem hann talaði um að það væri erfitt að ná fé úr fjármálaráðuneytinu frá samflokksmanni hv. þingmanns. Mín spurning er einföld: Hvernig hugnast hv. þingmanni þessi áform undir yfirskini hagræðingar? Hefur hann áhyggjur af þessu og hvað mun hann gera til þess að tryggja nægt fjármagn þannig að það sé hægt að reka báða þessa öflugu og góðu skóla áfram, þ.e. ef hann er þess þenkjandi?