154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:02]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og taka undir megnið af ræðunni. Ég get tekið undir að við erum oft mjög sammála um margt þó að okkur greini á annars staðar. Ég vil enn frekar þakka honum fyrir að koma inn á lögregluna sem er náttúrlega mitt uppáhaldsmál. Ég tek undir þetta með gæði kosta og að maður fái það sem er borgað fyrir. Það hefur verið skorið inn að beini hjá lögreglunni. Við höfum verið að byggja það upp, eins og ég fór yfir áðan, á tvennan hátt, bæði með því að fara yfir hvernig er hægt að gera verkefnin betur og nýta það fjármagn sem er til betur og setja mikið „effort“ í það en um leið að auka fjármagnið. Sjaldan hefur fjármagnið verið jafn mikið aukið og var gert í síðustu fjárlögum, sem skiptir gríðarlega miklu máli.

Ég held að rafbyssan og aukin vopnavæðing lögreglunnar sé ekki afleiðing af því að lögreglan sé að biðja um vopn og annað til þess að geta gert eitthvað á hagkvæmari hátt eða af því að hún hafi minni mannskap — alls ekki. Þetta er bara breyttur veruleiki. Ég get fullyrt það, hafandi setið sjálfur í Landssambandi lögreglumanna og starfað í lögreglunni í tíu ár, að lögreglumenn, ef þeir mættu velja, ef það væri ekki breyttur heimur og ekki breytt verkefnastaða og okkur hefði tekist einhvern veginn öðruvísi að takast á við rótlausa unga drengi og að heimurinn væri ekki búinn að opnast svona og kraftur samfélagsmiðla og það sem gerist annars staðar væri ekki fljótara að koma hingað og skipulögð brotastarfsemi væri ekki búin að vaxa ofan á það, ef þeir hefðu getað valið að það hefði bara ekki gerst, að við þyrftum ekki að búa við aukin félagsleg vandamál, aukna glæpastarfsemi þar sem glæpahópar eru að takast á, ef þeir hefðu getað valið að það væri ekki og þeir þyrftu ekki að hafa rafbyssu, þyrftu ekki að hafa aukinn vopnaburð, þá myndu þeir alltaf velja það. Þetta er ekki það fyrsta. Þetta eru bara viðbrögð við breyttum aðstæðum sem skapa óöryggi meðal lögreglumanna. Öryggistilfinning lögreglumanna hefur farið niður og þetta er leið til að auka þá tilfinningu.