154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

samstarf ríkis og einkaaðila í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu.

[15:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við erum ekki að boða miklar skattahækkanir á næsta ári en rétt er að tímabundin 1% hækkun á tekjuskatti lögaðila er boðuð og hún verður lögfest til eins árs þannig að það mun þá þurfa nýtt lagafrumvarp til að breyta því ef áhyggjur eru af því að skatturinn verði ekki tímabundinn. Annars held ég að ég hafi ágæta sögu að segja varðandi tímabundna skatta. Ég lét raforkuskatt vinstri stjórnarinnar renna út og auðlegðarskattinn sömuleiðis og lækkaði bankaskattinn og tekjuskatta og svo höfum við fellt niður áratugagömul vörugjöld og tolla. Þannig að ég hef svo sem ágætissögu að segja af því efni öllu saman. En ég fæ mikið kvartanir hérna í þinginu þegar ég lækka skatta og margir vilja hækka skatta og það þarf nú lítið að minna þingheim á það vegna þess að nóg er af skattahækkanahugmyndum hér í þinginu.

En aðeins um fjármögnun hjúkrunarrýma. Ég er sammála því og nú vinnum við hæstv. heilbrigðisráðherra að nýrri stefnumótun um uppbyggingu hjúkrunarrýma til framtíðar. Það er mitt álit að sú leið sem við höfum farið til þessa, að tryggja framlög á fjárlögum til að vera með opinberar framkvæmdir við byggingar hjúkrunarheimila, hafi í raun og veru runnið sitt skeið og það síðasta sem ég hef haft sérstaka aðkomu að í þessu efni er að mæla hér fyrir fjármálaáætlun sem hefur tryggt verulegt fjármagn. Í fjármálaáætlun sem kom hér fyrir árin 2020–2024 vorum við búin að taka frá 25 milljarða til að byggja hjúkrunarrými. Þessir peningar gengu ekki út og það söfnuðust upp milljarðar á milljarða ofan á milli ára. Þannig að umræðan sem þá gekk á um að það vantaði fjármagn í byggingu hjúkrunarrýma var bara röng. Það er mín skoðun að við eigum að hætta með opinberar áætlanir um það hvernig við byggjum rými og steypum upp hús með ríkissteypu (Forseti hringir.) og bara tryggja fólki aðgengi að þessari þjónustu og treysta sjálfseignarstofnunum og öðrum sem eru að veita þessa þjónustu til að gera sínar áætlanir um byggingu mannvirkjanna (Forseti hringir.) og við eigum síðan að greiða þeim fyrir það.