154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

Hjúkrunarrými og heimahjúkrun.

[11:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Skortur á hjúkrunarrýmum er stórkostlegt vandamál og í raun furðulegt, óskiljanlegt miðað við hvað þessari ríkisstjórn hefur tekist að eyða óhemjumiklum peningum, slegið öll met í þeim efnum, að ekki skuli hafa verið forgangsraðað meira í uppbyggingu hjúkrunarrýma.

Vandinn verður ekki leystur öðruvísi en með því að líta á heildarmyndina því að vandi á einum stað í heilbrigðiskerfinu hefur í raun áhrif á öll önnur svið. Þetta er allt tengt og þegar eitt fer úr skorðum þá fer annað úr skorðum fyrir vikið. Og nú er allt í steik í kerfinu, það verður bara að segjast eins og er, og þá virkar ekkert svið heilbrigðiskerfisins. Dæmi um það er að fjöldi ungs fólks er vistaður á hjúkrunarheimili vegna fötlunar eða annarra vandamála, sem sýnir það að kerfið er ekki að virka, hvert svið er ekki að ná að gegna sínu hlutverki.

En aukin áhersla á heimahjúkrun leysir ekki vanda hjúkrunarheimilanna. Það er nánast engin skörun þar á milli. Fólk sem getur nýtt sér heimahjúkrun á ekki heima á hjúkrunarheimilum eins og þau hafa verið skilgreind og hafa starfað. Það er því fínt að auka heimahjúkrun fyrir þá sem vilja hana, fyrir þá sem geta með góðu móti nýtt sér slíka þjónustu, en heimahjúkrun getur ekki komið í stað hjúkrunarrýma. Það þarf því að huga að öllum þáttum, mismunandi lausnum í heilbrigðiskerfinu á sama tíma.