154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

lyfjalög og lækningatæki.

224. mál
[17:28]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna en geri alvarlegar athugasemdir við frumvarpið sem hér er til umræðu og þær eru margvíslegar. Til að byrja með, eins og ég kom inn á áðan í orðaskiptum við hæstv. ráðherra, er svo gríðarlega mikilvægt að við göngum ekki lengra við innleiðingu á EES-gerðum en þörf er á. Innlend fyrirtæki og neytendur eiga að sitja við sama borð og aðrir á innri markaði ESB. Það er nákvæmlega það sem þetta frumvarp felur í sér, óþarfa þyngsli fyrir atvinnulífið með vísvitandi tilvísun í meintar skyldur samkvæmt EES-samningnum; gullhúðun í sinni tærustu mynd, blýhúðun vill atvinnulífið kalla þetta. Þegar hæstv. ráðherrar ætla samt að ganga lengra en EES-samningurinn krefur þá um þá ber þeim að vekja sérstaklega athygli þingsins á því og með greinargóðum rökstuðningi. Það er ekki gert í þessu máli. Reyndar má benda á að hæstv. ráðherra er alveg sérstaklega samviskusamur og áfjáður þegar kemur að Brussel í þessu máli, enda hefur þessi reglugerð ekki enn verið tekin upp í EES-samninginn þótt það standi nú til og hann er núna meira að segja búinn að leggja þetta mál fram tvisvar.

Ég er með athugasemdir í fimm liðum. Í fyrsta lagi gerir hæstv. ráðherra hér kröfu um að upplýsingar um birgðastöðu lyfja séu gefnar í rauntíma. Það er sannarlega ekki krafa samkvæmt Evrópureglugerðinni sem gerir ráð fyrir því að upplýsingar séu veittar þegar þörf krefur.

Í öðru lagi tekur Evrópureglugerðin bara til stakra lyfja og tækja sem eru á skilgreindum lista og í tengslum við brýna ógn við lýðheilsu eða meiri háttar atburð. Þetta er margendurtekið í reglugerðinni og kemur það skýrt fram. Hæstv. ráðherra gerir hins vegar kröfu um upplýsingagjöf um öll lyf og það í rauntíma. Á lista ESB eru nú færri en 20 lyf en í frumvarpi hæstv. ráðherra er gert ráð fyrir vöktun á rúmlega 5.000 vörunúmerum.

Í þriðja lagi setur Evrópureglugerðin kvaðir um upplýsingagjöf á markaðsleyfishafa en hæstv. ráðherra leggur kvaðir um rauntímaaðgang að birgðastöðu á markaðsleyfishafa, heildsala, framleiðanda, smásala og eftir atvikum aðra.

Í fjórða lagi felst gríðarlegur kostnaður í frumvarpi hæstv. ráðherra við þróun og rekstur sérstaks kerfis svo að hægt sé að veita upplýsingar í rauntíma, eða tæpar 500 milljónir, hálfur milljarður. Skyldu um slík fjárútlát er hvergi að finna í Evrópureglugerðinni.

Í fimmta lagi gengur hæstv. ráðherra mun lengra varðandi deilingu upplýsinga sem aflað verður með ríkisstofnunum og heilbrigðisstarfsmönnum og með almenningi. Þannig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að upplýsingamiðlunin hér verði mun ríkari en í ESB þrátt fyrir smæð markaðarins hér. Það þarf varla að nefna að hér er um að ræða upplýsingar sem snúa með beinum eða óbeinum hætti að viðskiptahagsmunum íslenskra fyrirtækja og geta því verið viðkvæmar samkeppnisupplýsingar. Það er því alger óþarfi að ganga lengra en Brussel gerir kröfu um.

Mér þætti eðlilegast að hæstv. ráðherra tónaði niður þetta frumvarp svo að það væri í samræmi við Evrópureglugerðina sem því er ætlað að innleiða, og það meira að segja löngu áður en við þurfum þess, enda hafa ekki verið færð nein haldbær rök fyrir því að hér séu uppi slíkar aðstæður að við verðum að ganga margfalt lengra en vinir okkar á meginlandinu. Skýrsla hæstv. forsætisráðherra breytir þar engu um. Hér eru ekki uppi neinar séríslenskar aðstæður sem krefjast þessa og reyndar útskýrði hæstv. ráðherra það ekki hér áðan hvernig rauntímaaðgangur að birgðastöðu lyfja og lækningatækja dragi.. úr skorti eins og fullyrt er í greinargerð.

Ég hvet hæstv. ráðherra því til að endurskoða frumvarpið þannig að það taki bara til nauðsynlegra lyfja og tækja í samræmi við Evrópureglugerðina. Þá verði íþyngjandi skyldu um aðgang að upplýsingum í rauntíma sömuleiðis breytt til samræmis við Evrópureglugerðina og hann láti af áformum um 500 millj. kr. fjárútlát vegna sérstaks kerfis af þeim sökum. Þessi eyðsluáform eru ekki beint í samræmi við hagræðingar- og niðurskurðaráform stjórnvalda. Hefur hæstv. ráðherra einu sinni kannað hvort hægt sé að afla upplýsinga um birgðastöðu með einfaldari og ódýrari hætti?

Ég vek athygli á því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir þessum 500 milljónum, hálfum milljarði, en það verður ekki endanlegur kostnaður við þessa lagasetningu. Hversu margir starfsmenn Lyfjastofnunar munu annars þurfa að manna þetta eftirlit? Þarf Lyfjastofnun kannski aukin fjárframlög?

Ég hvet hæstv. ráðherra sömuleiðis til að takmarka upplýsingagjöf til ríkis og heilbrigðisstarfsfólks og til almennings með sama hætti og Evrópureglugerðin kveður á um. Ég verð að segja að miðað við frumvarpið sem við erum að fjalla um hér hef ég hreinlega áhyggjur af fyrirætlunum hæstv. ráðherra um frekari aðgerðir í þessum dúr.