154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

225. mál
[18:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi sérstaklega og fyrirhuguðum áformum sem í því felast. Ég tel málið vera tímabært. Ísland er eina norræna þjóðin sem hefur ekki innleitt löggjöf sem tekur til refsiábyrgðar gagnvart starfsfólki í heilbrigðisþjónustu vegna alvarlegra atvika.

Samkvæmt heilbrigðisstefnu til ársins 2030 snýst öryggi í heilbrigðisþjónustu um að notandi heilbrigðisþjónustu eigi ekki á hættu að hljóta skaða af meðferð og annarri þjónustu sem ætlað er að bæta heilsu hans eða lífsgæði.

Markmið frumvarpsins er að auka öryggi sjúklinga og bæta aðbúnað heilbrigðisstarfsfólks með því að efla öryggismenningu og fækka óvæntum atvikum í samræmi við stefnu í málaflokknum. Áætlað er að um 10% sjúklinga á sjúkrahúsum á Vesturlöndum verði fyrir einhvers konar óhappi eða mistökum sem flokkast undir óvænt atvik. Í stefnu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í hjúkrunar- og heilbrigðismálum kemur fram að gæði og öryggi hafi verið viðfangsefni hjúkrunarfræðinga frá upphafi. Skortur á hjúkrunarfræðingum, sem stundum gengur undir nafninu mönnunarvandi, er alvarlegt vandamál sem vegur að öryggi innan heilbrigðisþjónustunnar og stendur í vegi fyrir því að unnt sé að veita nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Öll lönd glíma við þennan vanda og það gerum við Íslendingar einnig. Til að koma í veg fyrir skort á heilbrigðisstarfsfólki skipta kjör, aðbúnaður og starfsumhverfi miklu máli. Öryggi sjúklinga eykst með aukinni menntun hjúkrunarfræðinga, með því að fjölga hjúkrunarfræðingum á vakt hverju sinni, minnka álag og auka traust í samskiptum og samvinnu heilbrigðisstétta.

Ef við skoðum aðeins stefnuviðmið Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga til 2030 segir m.a. að óvænt atvik sem heilbrigðisstarfsfólk á aðild að geti ekki verið grundvöllur sakamáls nema sannað sé að um ásetning sé að ræða, að sjálfstæð, óháð stofnun ætti að vera starfandi sem hefur það hlutverk að greina tilkynningar um óvænt atvik og koma með tillögur að breyttu verklagi til að bæta öryggi sjúklinga og starfsmanna, ekki ósvipað og rannsóknarnefnd samgönguslysa, ef svo má að orði komast, að starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga ætti að einkennast af gæðamenningu og öryggisbrag og vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga að vera öruggt, líkamlega og tilfinningalega hvetjandi og eftirsóknarvert. Þetta eru göfug markmið, frú forseti.

Í frumvarpinu er fjallað um núverandi fyrirkomulag laga. Þar segir að rannsókn á óvæntum atvikum sem leiða til dauðsfalls skuli fara fram hjá embætti landlæknis og samtímis hjá lögreglu. Um þá tvöföldu málsmeðferð segir að rannsókn eftirlitsstjórnvalds og rannsókn lögreglu samtímis geti talist í ósamræmi við regluna um bann við endurtekinni málsmeðferð skv. 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur bent stjórnvöldum á þá agnúa sem þetta fyrirkomulag í lögunum hefur í för með sér.

Veruleikinn í málaflokknum er sá að í mörgum málum er varða meint mistök heilbrigðisstarfsmanna hafa heilbrigðisstofnanir bæði vísað máli til landlæknis á grundvelli laga um landlækni og lýðheilsu en einnig kært mál til lögreglu. Á þetta t.d. við í málum vegna andláts sjúklings. Í þeim tilvikum hefur sama málið verið rannsakað hjá tveimur aðilum, landlækni annars vegar og hjá lögreglu hins vegar og það jafnvel á sama tíma. Landlæknir hefur t.d. lokið máli með ákvörðun um að gera ekkert í málinu eða grípa til viðurlaga gagnvart heilbrigðisstarfsmanni. Þetta á sér stað áður en lögreglurannsókn hefst eða henni lýkur, eftir atvikum með ákæru og sakfellingardómi í refsimáli. Tvöföld rannsókn sem þessi og möguleg tvöföld refsiákvörðun fær tæpast staðist lög, þar með talið ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Þetta frumvarp er því sérstakt fagnaðarefni að mínum dómi og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur fagnað því sérstaklega. Það er þó engu að síður áfram gert ráð fyrir því að halda fyrirkomulaginu í þeim farvegi að báðir framangreindir aðilar rannsaki mál með þeim hætti að landlæknir rannsaki óvænt atvik fyrst en hafi síðar möguleika á því að vísa máli áfram til lögreglu. Í frumvarpinu segir um þetta að einnig sé til athugunar að bæta nýjum ákvæðum við lög um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, þar sem fjallað verði um að á meðan rannsókn á óvæntu atviki fari fram hjá embætti landlæknis sé að jafnaði ekki samtímis í gangi rannsókn vegna sama máls hjá lögreglu. Hins vegar gæti embætti landlæknis vísað málum til lögreglu þegar grunur er um stórkostlegt gáleysi eða ásetning.

Frú forseti. Ég held að hér verði að stíga varlega til jarðar í því að viðhalda tvöfaldri málsmeðferð þó að áform kunni að vera uppi um breytta útfærslu. Umrædd áform um breytingar í þá veru að landlæknir rannsaki mál fyrst í stað, en síðan lögregla, getur síðan eftir sem áður leitt til réttarskerðingar fyrir heilbrigðisstarfsmenn. Í því sambandi má benda á að við rannsókn máls tekur landlæknir skýrslu af heilbrigðisstarfsmanni. Á þeim tímapunkti hefur heilbrigðisstarfsmaður ekki réttarstöðu sakbornings, sem hann gæti öðlast síðar, verði málinu vísað til lögreglu. Sú staða getur komið upp að starfsmaðurinn upplýsi um eitthvað fyrir embætti landlæknis sem honum væri ekki skylt, réttarstöðu sinnar vegna, að svara sem sakborningur við rannsókn lögreglu. Ekki er þannig loku fyrir það skotið að framburður og mögulegar viðurkenningar heilbrigðisstarfsmannsins við skýrslugjöf hjá embætti landlæknis rati inn sem málsgögn í rannsókn lögreglu og vinni þar með gegn heilbrigðisstarfsmanninum við rannsókn lögreglu. Að auki gæti slík málsmeðferð haft í för með sér að verulegur dráttur verði á málsmeðferð hjá embætti landlæknis sem dæmi eru um að hafi gerst, með alvarlegum áhrifum á líðan þess sem á í hlut.

Í ýmsum eftirlitsmálum landlæknis á umliðnum árum þar sem vaknað hefur grunur um alvarlegt brot heilbrigðisstarfsmanns hefur embættið beitt heilbrigðisstarfsmann viðurlögum, jafnvel þegar í stað, á sama tíma eða áður en lögreglurannsókn er hafin. Dæmi um þetta er bráðabirgðasvipting og fullnaðarsvipting starfsleyfis. Einu gildir þótt niðurstaða sé ekki komin í rannsókn lögreglu um hvort hún leiðir til ákæru eða sakfellingar fyrir dómi. Embætti landlæknis hefur ekki haldið að sér höndum með slíka viðurlagabeitingu þrátt fyrir að ekkert liggi fyrir um hver niðurstaða lögreglurannsóknar verði. Slík tvöföld málsmeðferð kann því að leiða til tvöfaldrar refsingar heilbrigðisstarfsmanns, þ.e. annars vegar af hálfu stjórnvaldsins og hins vegar síðar með refsidómi.

Ég get ekki séð að sérstaklega sé að þessu hugað þegar áformað er að landlæknir rannsaki mál fyrst í stað en geti vísað þeim til lögreglu. Vel kann að vera að fyrir þessu hafi verið hugsað, þ.e. að undir þeim kringumstæðum þegar máli er vísað til lögreglu geti ekki komið til undanfarandi viðurlagabeitingar stjórnvaldsins. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga vekur sérstaklega athygli á þessu atriði, að koma þurfi í veg fyrir að heilbrigðisstarfsmaður sé beittur tvöföldum viðurlögum, enda stríði það gegn ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu eins og áður segir.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur áréttað stefnumið félagsins um að starfandi sé sjálfstæð, óháð stofnun í stað embættis landlæknis sem tæki til rannsóknar óvænt atvik í heilbrigðisþjónustu og ég tek undir þetta, frú forseti.

Í frumvarpinu segir einnig að ekki sé ætlunin að breyta þeirri faglegu og starfsmannaréttarlegu ábyrgð sem heilbrigðisstarfsfólk í þessum tilvikum þarf að bera og betur komi fram í viðurlögum af hálfu vinnuveitanda eða embættis landlæknis, svo sem með áminningu, starfsmissi eða sviptingu réttinda. Tilhneiging heilbrigðisstofnana á umliðnum árum hefur beinst í þá átt að fagleg og starfsmannaréttarleg ábyrgð hjúkrunarfræðinga innan heilbrigðisstofnana hefur farið fram úr öllum eðlilegum mörkum og viðmiðum. Á þetta hefur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga bent. Hefur þetta m.a. lýst sér í því að mönnun er oftar en ekki undir tilsettum mörkum, nemar eru án starfsréttinda og látnir sinna störfum hjúkrunarfræðinga og hjúkrunarfræðingur er látinn bera ábyrgð á deild innan heilbrigðisstofnunar á tilteknum tímum án þess að vera í stöðu yfirmanns sem venjulega ber ábyrgðina á deildinni, svo sem deildarstjóra. Mönnunarvandi og óhóflegt starfsálag hjúkrunarfræðinga sem og álag á annað heilbrigðisstarfsfólk leikur þarna stórt hlutverk.

Þau atvik sem frumvarpinu er ætlað að ná til, m.a. óvænt atvik, hafa í einhverjum hluta tilvika hlotist af þessu og heilbrigðisstofnun þannig við útfærslu starfseminnar brotið í bága við ákvæði laga og reglugerða sem snúa að umræddri ábyrgð. Ábyrgðin liggur vitaskuld hjá heilbrigðisstofnuninni einni hvað þetta varðar en ekki hjá heilbrigðisstarfsmanninum. Ég held að það sé nauðsynlegt að skoða þennan þátt sérstaklega.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur bent á að mótsagnir kunni að felast í því að stjórnvöld segi annars vegar að rétt sé að refsiábyrgð hvíli á heilbrigðisstofnun vegna óvæntra atvika en ætli sér svo hins vegar enga breytingu að gera á faglegri og starfsmannaréttarlegri ábyrgð þegar brot á reglum henni tengdum af hálfu heilbrigðisstofnunar leiða til óvæntra og alvarlegra atvika. Nauðsynlegt er að fara vandlega yfir þessar athugasemdir í nefndarvinnunni sem fram undan er.

Frú forseti. Fyrir tveimur árum birti Læknablaðið niðurstöður úr könnun sem gerð var meðal almennings í þjóðargátt annars vegar og hins vegar meðal hjúkrunarfræðinga. Marktækur munur reyndist á svörum hópanna um það hvort ákæra ætti fyrir skaða eða andlát af völdum mannlegra mistaka eða slysni þar sem hjúkrunarfræðingar voru líklegir til að verða mjög eða frekar ósammála ákæru en þjóðargáttarhópurinn líklegri til að verða mjög eða frekar sammála. Munurinn milli hópanna minnkaði með hærra menntunarstigi þjóðargáttarhópsins. Þegar spurt var um hvort ákæra ætti heilbrigðisstarfsmann fyrir skaða eða andlát vegna vanrækslu eða ásetnings var munurinn ekki marktækur. Í þessari lýsandi samanburðarrannsókn var kannað hvort munur væri á viðhorfum til ákæru vegna atvika í heilbrigðisþjónustu milli slembiúrtaks úr þjóðskrá, þ.e. þjóðgátt, og allra félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Báðir hópar voru spurðir hvort ákæra ætti heilbrigðisstarfsmann sem veldur alvarlegum skaða eða andláti vegna mannlegra mistaka, vanrækslu, slysni eða af ásetningi. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að viðhorf hjúkrunarfræðinga endurspegli ekki tilhneigingu til að víkjast undan ábyrgð á óvæntum atvikum í heilbrigðisþjónustu heldur mikilvægi þess að gera greinarmun á eðli slíkra tilvika. Þessar niðurstöður sýna að þörf er á upplýstri opinni umræðu um óvænt atvik í heilbrigðisþjónustu og viðeigandi ráðstafanir og viðbrögð sem best tryggja öryggi bæði sjúklinga og starfsfólks.

Frú forseti. Ég vil að lokum koma hér örstutt inn á atriði sem mér finnast skipta verulegu máli í þessu öllu saman, eins og hæstv. ráðherra minntist á í sinni ágætu ræðu, að sá heilbrigðisstarfsmaður sem verður fyrir því að gera mistök í sínu starfi glímir oft og iðulega við óöryggi og kvíða, kulnun og hrökklast jafnvel úr starfi. Hæstv. ráðherra minntist m.a. á mál sem átti sér stað árið 2015. Þá vil ég nefna sérstaklega þátt fjölmiðla í þessum málum. Mér finnast fjölmiðlar hafa farið offari þegar kemur að því að greina frá málum sem þessum. Það eru dæmi þess að af heilbrigðisstarfsmönnum sem hafa verið sýknaðir hafi margsinnis verið birtar myndir í fjölmiðlum og fjallað um málið og varla minnst á það að viðkomandi hafi verið sýknaðir. Það eru einnig dæmi þess að þegar önnur mál hafa komið upp þá eru gömul mál rifjuð upp, alls kostar óskyld því máli, og haldið er áfram að birta myndir af starfsmönnum. Þetta hefur gríðarleg áhrif á viðkomandi starfsmenn og fjölskyldur þeirra og ég vil hvetja fjölmiðla til að gæta varkárni í þessari umfjöllun vegna þess að þessi mál eru ákaflega viðkvæm og snerta mjög marga og ekki síst fjölskyldur þeirra sem eiga hlut að máli.

Að lokum vil ég segja það, frú forseti, að ég tek heils hugar undir með hæstv. ráðherra þegar hann segir að ríkir hagsmunir standi til þess að frumvarpið nái fram að ganga.