154. löggjafarþing — 13. fundur,  11. okt. 2023.

viðurkenning á þjóðarmorði á Armenum.

140. mál
[16:20]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé um þarft mál að ræða. Allir þingmenn þingflokks Flokks fólksins eru meðflutningsmenn á þessari tillögu til þingsályktunar um að viðurkenna þjóðarmorð á Armenum á árunum 1915–1917 og að við virðum minningu fórnarlamba þessa glæps sem glæp gegn mannkyni. Þetta átti sér stað á sama tíma og fyrri heimsstyrjöldin geisaði. Þegar Ottómanaveldið, sem stóð í 500 ár, var að hrynja og falla áttu þessir hrikalegu atburðir sér stað. Ef við samþykkjum þessa tillögu þá erum við ekki í slæmum félagsskap eins og kemur fram í greinargerðinni. Þjóðþing hafa verið að viðurkenna morðin á Armenum á þessum árum, 1915–1917, alveg frá 1965 þegar Úrúgvæ samþykkti að viðurkenna þjóðarmorð á Armenum. Ég sé hér á listanum að Svíþjóð hefur gert það, viðurkennt þetta sem þjóðarmorð, einnig Bandaríkin, Tékkland, Pólland, Holland, Frakkland, Sviss og fleiri ríki og það væri vert að við myndum gera það einnig. Síðasta ríkið sem viðurkenndi þessi morð sem þjóðarmorð á Armenum og glæp gegn mannkyni var Mexíkó í febrúar á þessu ári og það væri vert að við mundum gera það fyrir lok ársins. Vatíkanið hefur einnig viðurkennt þetta sem þjóðarmorð á Armenum, sama máli gegnir um Evrópuþingið og Evrópuráðsþingið og ég tel mikilvægt að við stígum fram og gerum það sama hér.