154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[10:32]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Tíðindin af blaðamannafundi fjármálaráðherra voru auðvitað aldrei afsögn heldur bara hvaða ráðherrastóll biði hans. Eftir meinta afsögn tók ekki annað við en nýr dagur í Stjórnarráðinu og ný ráðherrastóll. Núverandi forsætisráðherra segir að hún treysti engum betur en Bjarna. Kannski hún taki þá undir það sem Sjálfstæðismenn segja núna í fjölmiðlum, að eðlilegast sé að Bjarni Benediktsson taki bara við stól forsætisráðherra. Rúmur sólarhringur var liðinn frá því að fjármálaráðherra greindi auðmjúkur frá afsögn sinni vegna lögbrota við sölu á Íslandsbanka þegar nánast allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfðu mótmælt niðurstöðu umboðsmanns. Sólarhringsauðmýktinni var lokið. Og nú er fjármálaráðherra mættur hér í þingsal eins og ekkert sé. Flestum erfiðum málum ríkisstjórnar hefur hingað til lokið á þann hátt að forsætisráðherra hefur birst þjóðinni og sagt að það þurfi að læra af málinu, að hún þurfi af læra málinu, læra af mistökunum. En í þessu máli virðist lærdómurinn ætla að vera sá að fjármálaráðherra þurfi kannski bara að læra að verða utanríkisráðherra eða forsætisráðherra.