154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

Þolmörk ferðaþjónustunnar.

[16:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka málshefjanda fyrir að opna þessa ágætu umræðu. Mig langar að einblína á eina af spurningum málshefjanda sem snýr að því hvernig hægt sé að stuðla að betri dreifingu ferðamanna. Það hefur verið komið inn á það í nokkrum ræðum hér á undan en það blasir við af þeim skilaboðum sem berast frá stjórnvöldum nú um stundir, bæði í gegnum fjármálaáætlun og gildandi samgönguáætlun, að það er mismikil áhersla sem á þetta er lögð.

Ég vil í þessu samhengi nefna eitt dæmi, eitt mál, sem er tenging Suðurlands og Vesturlands um Uxahryggi sem er framkvæmd sem komst á rekspöl í byrjun aldarinnar á grundvelli þess að þar væri um ferðamannaleið að ræða sem tengdi saman Suðurland og Vesturland, Suðurland þá strax augljóslega með töluvert mikinn þunga er varðar ferðamenn. En þarna var augljós tenging frá Þingvöllum yfir á Vesturlandið, annaðhvort Húsafell eða niður í Lundarreykjadal og í Borgarfjörð, en það er eins og áhuginn á því að tengja þessi svæði saman hafi horfið.

Nú finnum við okkur í þeirri stöðu að það er sérstakur rökstuðningur fyrir því að Vesturland fái hartnær ekkert framkvæmdafé til stofnvegaframkvæmda næstu fimm árin að umferðarþunginn sé bara svo mikill á Suðurlandi. Við verðum að horfa á þetta heildstætt og eitt af því sem við þurfum að gera til að auðvelda dreifingu ferðamanna er auðvitað það að tengja betur saman svæðin eins og í þessu tilfelli Suðurland og Vesturland með góðri tengingu um Uxahryggi. Verkið er hálfnað en það þarf að klára það. Í augnablikinu er ekkert sem bendir til þess að það sé á stefnuskrá ríkisstjórnarflokkanna.