154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

ávana- og fíkniefni.

102. mál
[17:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er mjög merkilegt mál hérna í þinginu þegar allt kemur til alls. Á síðasta kjörtímabili fór þetta mál í atkvæðagreiðslu eftir 2. umræðu og þar var það fellt, merkilegt nokk, þrátt fyrir að allir sem kæmu upp í ræðustól lýstu sig fylgjandi þeim markmiðum sem kæmu fram í frumvarpinu. Þau töldu upp ýmsar ástæður fyrir því að þáverandi útgáfa frumvarpsins væri ekki nógu góð en hunsuðu á sama tíma að fyrir lágu breytingartillögur um frumvarpið sem tóku á öllum þeim atriðum sem voru nefnd sem ástæðan fyrir því að vera á móti frumvarpinu eins og það var lagt fram, af því að hv. þm. Halldóra Mogensen lagði mikið á sig til að vinna málið mjög vel í nefnd, kalla umsagnaraðila á fund til að útskýra fram og til baka hina ýmsu agnúa sem voru kannski á málinu; smáatriði, lagatæknileg atriði, útfærsluatriði og ýmislegt svoleiðis og lagði mikið á sig til að koma til móts við þær ábendingar og lagði þær allar fram í breytingartillögu við málið. Ýmsir stjórnarþingmenn komu hérna upp í ræðustól og sögðu að þau myndu ekki styðja málið af því að það vantaði þetta eða hitt sem var þó að finna í breytingartillögunum sem voru lagðar fram eftir nefndarvinnuna. Málið kom í atkvæðagreiðslu og var einfaldlega hafnað. Það var sagt: Nei, þetta mál fer út og við greiðum ekki einu sinni atkvæði um þessar breytingartillögur, þar sem breytingartillögurnar löguðu það sem var andmælt.

Þá fær maður þessa tilfinningu, og þess vegna er þetta mál svona áhugavert í störfum þingsins almennt, að það skipti máli hvaðan gott kemur, að af því að þetta er ekki ríkisstjórnarfrumvarp þá sé ekki hægt að samþykkja það. Mér finnst það rosalega sorglegt því að það er alveg þvert ofan í þau vinnubrögð og þá grunnstefnu sem Píratar vinna samkvæmt; að það skipti ekki máli hvaðan gott kemur, það skipti ekki máli hver sé flutningsmaður því að ef hugmyndin er góð þá eigum við að samþykkja hana vegna þess einmitt að hún gerir betur fyrir samfélagið. Með þessu hugarfari rýnum við öll mál, meira að segja ríkisstjórnarmál. Við erum ekki á þeim buxunum að vera bara á móti málum af því að í prinsippinu finnist okkur einhvern veginn að við séum í stjórnarandstöðu og eigum þá að vera á móti öllu, eins og fyrrum stjórnmálamaður hérna á árum áður og fyrrum forsætisráðherra sagði í viðtali árið 2005, 2003 eða eitthvað svoleiðis. Það er bara eitur í okkar beinum að vera á móti málum bara til að vera á móti þeim. Við erum einungis á móti málum ef það eru málefnalegar ástæður fyrir því og þá sérstaklega á móti málum sem ganga á borgararéttindi fólks. Það er grundvallaratriði hjá okkur Pírötum að tryggja og efla og vernda borgararéttindi þannig að þegar fólk sér okkur hérna uppi í ræðustól þá er það mjög oft vegna þess að við erum einmitt að reyna að vernda og efla borgararéttindi, koma í veg fyrir að það sé verið að henda fólki á götuna t.d.

Þetta mál, afglæpavæðing neysluskammta, er mjög áhugavert í þessu samhengi, að það virðist skipta máli hvaðan gott kemur, því að eins og ég segi þá hefur það farið í atkvæðagreiðslu í þinginu þar sem fólk almennt séð lýsti yfir stuðningi við markmiðin. En samt gerist ekkert, það hreyfist allt á snigilshraða og öll tilfinningin sem maður fær við nánari skoðun — það þarf nú að skoða þetta betur og skoða hitt betur, er sagt, en það er ekkert annað en fyrirsláttur til að tefja málið þannig að það gerist ekki, því að það eru ákveðnir aðilar, hagsmunaaðilar innan vissra embætta og stofnana, sem eru á móti þessu, að hluta til af mjög ómálefnalegum ástæðum. Það hefur heyrst frá lögreglunni t.d., í gegnum einhverjar svona bakrásir, að ef lögreglan hefur ekki þá heimild að taka neysluskammt, þá geti hún ekki sinnt víðtækari löggæslumálum varðandi fíkniefni, því að þetta snýst vissulega ekki um stórtæka fíkniefnasölu og þess háttar. Það er ekki það sem er verið að glíma við hérna. Það er enn þá ólöglegt, slík sala og því um líkt er ólögleg. Kannski finnst einhverjum það vera svona öfugsnúið að hugsa málið þannig, hvernig getur verið löglegt að vera með eitthvað sem er almennt séð síðan ólöglegt? En það snýst einmitt um það að þarna er um ákveðna friðhelgi einkalífs að ræða og rétt fólks til þess að ráða því hvað það lætur ofan í sig og á, á meðan glæpastarfsemin sem slík er síðan allt annað.

Það er síðan annað mál í kjölfarið að hugsa um þessi mál vegna þess að þetta varðar ákveðna friðhelgi, hvort þetta sé eitthvað sem ætti að vera ólöglegt þegar allt kemur til alls, alveg á nákvæmlega sama hátt og áfengi var gert ólöglegt, og það virkaði bara alls ekki. Það er rosalegt vímuefni og rosalega skaðlegt. Það að banna það, sem var von fólks að myndi leysa vandann, gerði hann bara verri ef eitthvað er. Þekktustu glæpasamtök heimsins í kúltúrnum eru tengd áfengissölu, Al Capone t.d. í Bandaríkjunum, eitt þekktasta glæponanafnið, og það er aðallega vegna áfengissölu, og annarra brota vissulega sem tengjast því. En eitt leiðir af öðru hvað það varðar. Í nútímasamfélagi væri viðkomandi aðili kannski bara nýsköpunarfrömuður með lítið eða jafnvel stórt bruggfyrirtæki, og gerði það gott á löglegan hátt.

Við þurfum í alvörunni að hugsa aðeins um þetta því að ég skil hvaðan fólk kemur með hræðsluna um áhrifin af vímuefnum, hvort sem það er kaffi, tóbak, áfengi, heróín eða hvað sem það er. Þau eru rosalega mismunandi, rosalega misskaðleg. En þegar allt kemur til alls þá er það jafnvel það að þau séu ólögleg sem gerir þau skaðlegri því að fólk leitar samt í þau ef það finnur fyrir þeim tómleika sem knýr það í einhvers konar efni. Ég held að við ættum að hugsa um það. En fyrsta skrefið sem við höfum verið að stíga er: Byrjum alla vega á því að fólk sem er veikt nú þegar — forvarnir eru síðan tvímælalaust annað atriði sem þarf að huga að bara almennt séð og miklu betur varðandi öll efni, lögleg eða ólögleg og hvernig sem það er. Byrjum alla vega á því að fólk sem er veikt, og jafnvel ekki veikt, eins og hefur lýst hérna — að það sé ekki ólöglegt að vera með svona tilraunastarfsemi eða að sinna fíkn og þess háttar. Ef fólk vill síðan lækningu eða aðstoð, eða hvernig aðstæður sem fólk upplifir sig í gagnvart þessum efnum, þá eigum við að sjálfsögðu að bjóða fram aðstoð okkar. Það er langbesta leiðin til þess að þetta sé ekki vandamál, því að alveg eins og við þekkjum kannski einna best með alkóhólismann þá gengur best að lækna hann hjá fólki sem vill leita sér hjálpar. Það þarf fyrst því að vandinn er til staðar, óháð því hvort eitthvað annað er þar undir.

Ég vildi alla vega koma þessu að varðandi þetta mál sem slíkt, að tilfinning mín gagnvart þessu, hvernig meðhöndlun þingsins hefur verið hérna á síðasta kjörtímabili, er einhvern veginn sú að þrátt fyrir að fólk komi hér upp í ræðustól og segist vera sammála þessum markmiðum þá er það það í rauninni ekki þegar allt kemur til alls. Ég veit ekki alveg ástæðuna fyrir því. Það lítur út fyrir að það sé vegna þess að það sé bara ákveðin sjónhverfing, það sé í rauninni að segja þetta til að tala inn í ákveðnar skoðanir sem styðja þetta mál almennt séð, en að einhverjir aðrir hagsmunir sem þau meta betur án þess að segja það beint út ráði för og/eða það að það skiptir máli hvaðan gott kemur og þar af leiðandi er ekki talið vænlegt pólitískt séð að samþykkja mál þegar það kemur frá einhverjum öðrum en flokki úr ríkisstjórn.