154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

staðfesting ríkisreiknings 2022.

399. mál
[15:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hér erum við að glíma við ríkisreikning fyrir árið 2022. Það var einmitt á því ári sem verðbólgan sprakk í andlitið á okkur, nánar tiltekið í febrúar á því ári. Á þremur, fjórum eða fimm mánuðum eftir það kom ársverðbólga í andlitið á okkur — einn, tveir og bingó. Síðan þá hefur hún verið sjóðandi undir niðri allan þann tíma. Hún hefur einnig verið mjög há á þessu ári. Það voru mjög háir verðbólgumánuðir í upphafi þessa árs líka. Á meðan þessi atburðarás hefur verið í gangi, síðan í upphafi ársins 2022, hefur ríkisstjórnin aftur og aftur sagst vera að berjast við verðbólguna. Aðgerðapakkar voru kynntir í júní árið 2022 en ekkert hefur gerst síðan. Núna segir ráðherra að það hilli undir hraða lækkun verðbólgu á næstu mánuðum. Ég get alveg tekið undir það ef — og bara ef — verðbólga þróast í raun eftir meðalverðbólgu þessarar aldar, sem er svona 0,4% verðbólguhækkun á mánuði eða svo. Ef við fáum meðalverðbólgu fram á mitt næsta ár eða svo endum við einhvers staðar í 4,5% verðbólgu. Það væri frábært. Það er hins vegar ekkert sem segir okkur það að fyrri aðgerðir ríkisstjórnarinnar eða núverandi fjárlagafrumvarp séu einhvers konar orsakavaldur í þeirri þróun. Seðlabankastjóri segir meira að segja að fjárlagafrumvarpið sé hlutlaust. (Forseti hringir.) Ég myndi vilja biðja stjórnvöld og ráðherra um að koma heiðarlega fram og segja einfaldlega: Breytingar á verðbólgu eru ekki eitthvað sem ríkisstjórnin skiptir sér af. (Forseti hringir.) Það er einfaldlega markaðurinn, efnahagsaðstæður, ytri innflutningur o.s.frv. sem veldur þessu og við bara bíðum og vonum og sjáum hvernig það verður.