154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í síðustu viku fór fram þing Norðurlandaráðs sem haldið var í Ósló. Á þessu þingi tókum við Íslendingar við formennsku í Norðurlandaráði, þ.e. fyrir næsta ár, og mér hlotnaðist sá heiður að vera kosin forseti Norðurlandaráðs og Oddný G. Harðardóttir varaforseti. Við kynntum á þinginu formennskuáætlun okkar fyrir næsta ár í Norðurlandaráði og hún ber yfirskriftina Öryggi og friður á norðurslóðum. Með þessu viljum við færa augu Norðurlandanna upp til norðurslóða. Margoft hefur komið fram í ýmsum skýrslum sem unnar hafa verið fyrir Norðurlandaráð mikilvægi þess að Norðurlöndin tali einni röddu þegar kemur að málefnum norðurslóðanna. Það er því gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir okkur öll að koma í veg fyrir hernaðarkapphlaup eða auðlindakapphlaup á norðurslóðum. Ég vona að í formennskuáætlun okkar og í formennskutíð okkar takist okkur að fá Norðurlöndin saman í þessa vegferð þannig að við tölum einum rómi.

Það var ýmislegt sem kom fram á þingi Norðurlandaráðs en eitt af því sem hafði mikil áhrif á mig var ræða forsætisráðherra Grænlands, og ég leyfi mér að kalla hann forsætisráðherra, Múte B. Egede, þar sem hann líkti Norðurlandaráði við partí þar sem ekki allir fengju að vera með. Þar vísaði hann í það að Grænland, Færeyjar og Álandseyjar eiga ákveðna aðild að Norðurlandaráði en ekki fulla aðild og við fengum upplýsingar um það að fljótlega verði rætt á grænlenska þinginu hvort þau telji hreinlega ástæðu til að vera áfram hluti af Norðurlandaráði. Ég held því að það bíði okkar mikilvægt verkefni á næsta ári að klára endurskoðun Helsingfors-samningsins og ná saman um mikilvægi þess að Grænland, Færeyjar og Álandseyjar séu áfram hluti af Norðurlandaráði.