154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[18:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi þetta, bara örstutt til viðbótar, þá höfum við líka talað fyrir því lengi að hluti af virðisaukaskatti verði eftir í sveitarfélaginu þar sem þjónustan er innt af hendi. Það er náttúrlega önnur leið til að nálgast þetta, það þarf ekki endilega að vera gistináttagjaldið en ég nefni það hér vegna þess að það er til umræðu. Það er réttilega bent á að þetta er gjaldið sem var áður en Covid kom og svo var það fellt niður og svo kom það aftur, eins núna en vissulega með þeim viðauka að þetta er á haus núna frekar en á hverja einingu eins og hæstv. ráðherra kom inn á. En þá langar mig að spyrja varðandi annað atriði sem snýr bara yfir höfuð að þessari vísitölutengingu, eða sem sagt verðbólgutengingu varðandi þessi gjöld. Nú erum við með 2 millj. kr. viðmið á því hvenær þú þarft að byrja að greiða gistináttagjald og líka hvenær þú átt að byrja að greiða virðisaukaskatt af fasteign sem þú leigir út til ferðamanna og annað. Þetta eru oft bara einyrkjar sem eru að leigja út aðra fasteign eða eitthvað slíkt. Það hefur ekki tekið breytingum hvað varðar þessar 2 milljónir.(Forseti hringir.) Ég vildi bara spyrja hæstv. ráðherra hvort það kæmi til greina að skoða að hækka þetta mark aðeins (Forseti hringir.) í ljósi þeirrar gríðarlegu verðbólgu sem við erum búin að vera að horfa upp á hér.