154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

aðgerðir stjórnvalda til aðstoðar Grindvíkingum.

[15:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Spurning mín er nú keimlík þeirri síðustu en er þó ætluð öðrum ráðherra. Hæstv. félagsmálaráðherra tjáði sig rétt eins og hæstv. menningarmálaráðherra á þeim nótum að hann skoraði á bankana að gera eitthvað meira til að koma til móts við íbúa Grindavíkur. En hvað? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í málinu, annaðhvort af hálfu ríkisins eða gagnvart bönkunum, til að knýja á um einhverja niðurstöðu? Það er heldur ódýrt fyrir hæstv. ráðherra að lýsa því yfir í fjölmiðlum að þeir skori á bankana að gera eitthvað — hvað mun ríkisstjórnin gera? Við fengum lítil svör við því hjá hæstv. menntamálaráðherra hérna áðan önnur en þau að það stæði til að funda eitthvað með fulltrúum bankanna og að vonast væri til þess að ef þeir fengju kaffi hjá ráðherrum yrðu þeir samvinnuþýðir. En hverju ætlar ríkisstjórnin að ná fram? Það er spurning mín til hæstv. félagsmálaráðherra. Hverju vill ríkisstjórnin ná fram í viðræðum sínum við bankana, eða beri þær ekki árangur þá á eigin vegum í framhaldinu?