154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

aðgerðir stjórnvalda til aðstoðar Grindvíkingum.

[15:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það eru allir sammála um að gera þurfi eitthvað meira, segir hæstv. ráðherra, en það virðist algjörlega óljóst hvað meira það á að vera, að mati ríkisstjórnarinnar. Hæstv. ráðherra segist vonast eftir hugsanlega einhverri vaxtaniðurfellingu eða að litið verði á verðbæturnar. En hvað ætlar ríkisstjórnin sér í viðræðum sínum við bankana núna? Hverju ætlar hún að ná fram? Bara hugsanlega og vonandi einhverju? Þetta er óvissa, viðvarandi óvissa. Einnig ríkir mikil óvissa meðal Grindvíkinga um hvaða reglur gildi um tryggingar á húsnæði þeirra og verið uppi ýmsar kenningar um að ólíkar skilgreiningar á ástandinu geti haft áhrif á tryggingarnar. Hvað getur hæstv. ráðherra sagt okkur um stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi tryggingu eigna sem kunna að vera óíbúðarhæfar eða kunna að vera skemmdar að einhverju leyti eða hugsanlega virðislausar? Mun ríkisstjórnin koma til móts við það og sjá til þess að komið verði til móts við Grindvíkinga í tryggingamálum?