154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

Afleiðingar hárra vaxta fyrir heimilin í landinu.

[16:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka aftur fyrir þessa umræðu. Það sem hægt er að taka út úr henni er að við erum sammála um að mikil verðbólga og háir vextir séu vandamál sem við þurfum að leysa. Við erum öll sammála í orði um að ábyrga kjarasamninga þurfi til og við erum öll sammála í orði um að aðhald á útgjaldahlið sé mikilvægt, en það er ýmislegt sem við erum síðan kannski ekki alveg sammála um eða gætum illa náð saman um aðgerðir til að ná því markmiði.

Hér er töluvert rætt um krónuna og gjaldmiðlamál. Ég held að það sé mikilvægt að einfalda það ekki heldur um of. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að ræða gjaldmiðlamál hvenær sem kallað er eftir því en einhliða upptaka annars gjaldmiðils er almennt talin frekar óraunhæf. Upptöku evru þarf þá að gera með því að taka aðra og miklu stærri pólitíska ákvörðun, um að ganga í Evrópusambandið. Það er ekki hægt að láta eins og það sé ekki líka stór umræða um afleiðingar og ákvarðanir, hvort sem litið er á efnahagsmál, hagkerfið, auðlindir, löggjöf, útgjöld, hagsveiflur og hvernig þær ná jafnvægi hér á landi ef það yrði gert. Það er þar sem ég er einfaldlega pólitískt ósammála þeim sem vilja taka það skref. Of miklar sveiflur í hagkerfinu á Íslandi eru skaðlegar og ég er sammála hv. þingmönnum sem hafa komið inn á þetta. Þess vegna þurfum við að horfast í augu við hvað það er sem stuðlar að því, bæði þar sem við höfum mikla sannfæringu fyrir því sem þarf að gera og við þurfum líka að viðurkenna ef við höfum minni sannfæringu.

Við vitum u.þ.b. hvað þarf til. Við vitum að það þarf aðhald á útgjaldahlið, við vitum að við þurfum ábyrga kjarasamninga, við vitum hvar ábyrgðin liggur og hún er alls staðar. Það er enginn einn aðili sem getur eingöngu bent á hinn. Þetta er hið sameiginlega verkefni (Forseti hringir.) sem við stöndum frammi fyrir og sérstaklega nú er mikilvægt að við náum saman um það vegna þess að næg eru verkefnin og röð áfalla (Forseti hringir.) sem við stöndum frammi fyrir og við þurfum að vera í stakk búin til að mæta því.