154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

framlagning stjórnarmála.

[10:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fagna því með hálfum huga að það eigi að taka þingmannamál fyrir í nefndum, t.d. í velferðarnefnd, vegna þess að það er eitt að taka þau fyrir og annað að fá þau inn í þingsal og fá þau samþykkt. Við höfum sýnt það núna í vikunni í velferðarnefnd með aukafundum að við erum að vinna að málum, launamálum Grindvíkinga, og þar sýnum við líka hvernig við getum unnið þegar á þarf að halda. En við í Flokki fólksins erum með ógrynni mála t.d. í velferðarnefnd, mál þar sem við erum að byggja varnargarða kringum veikt fólk, aldrað fólk og slasað fólk sem þarf virkilega á hjálp að halda því að ástandið er skelfilegt þarna úti. Það hafa aldrei verið fleiri sem bíða í röðum eftir mat. Ég vona heitt og innilega að við fáum ekki bara að vinna mál í nefndum heldur líka að taka þau út og ég vona heitt og innilega að núna verði það í fyrsta skipti þannig að við séum ekki að samþykkja mál hérna á hlaupum á síðustu stundu í skjóli myrkurs.