154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

aðgerðaáætlun til að efla Sjúkrahúsið á Akureyri.

83. mál
[15:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins koma inn í þessa umræðu um þetta mikilvæga mál. Hef ég talsvert talað um Sjúkrahúsið á Akureyri frá því að ég byrjaði á þingi og kannski ekki óeðlilegt þegar maður situr í fjárlaganefnd og fjallar um þessi helstu mál sem standa heilbrigðisþjónustunni, og hafa gert, fyrir þrifum þrátt fyrir að því sé ekki að leyna að það hafa aldrei verið settir jafn miklir fjármunir í heilbrigðiskerfið, fyrir utan auðvitað bygginguna, eins og hefur verið gert á þessu eina og hálfa kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar.

Þessi tillaga hér um að búa til aðgerðaáætlun til að efla Sjúkrahúsið á Akureyri og starfsemi þess er gríðarlega mikilvæg, alveg sama hvernig á það er litið. Við höfum svo sem rætt margt sem hér er tekið fram áður inni á þingi, ekki síst þessi álitamál um hvort þetta eigi að vera kennslusjúkrahús, hvort þetta eigi að vera háskólasjúkrahús og hvað þurfi til þess með þennan öfluga háskóla á Akureyri. Við þingmenn kjördæmisins höfum a.m.k. viljað horfa til hans því að með því að auka nám í heilbrigðistengdum vísindum erum við að styrkja gríðarlega stórt svæði. Það eru engin ný sannindi, eins og hér hefur verið rakið, að fólk sem lærir nær heimabæ sínum, hvort sem það er á Akureyri eða víðar á svæðinu, skilar sér betur til vinnu. Það eykur menntunarstig eðli máls samkvæmt á svæðinu og skiptir bara máli fyrir það að fólk geti valið sér hvar það vill búa.

Talsverðum fjármunum hefur verið varið til að styrkja heilsugæslurnar til þess einmitt að létta á þessari dýrari þjónustu sem sjúkrahúsinu eru. En við þurfum að hafa það í lagi, ég held að það sé alveg ljóst, ekki síst sáum við það nú þegar sjúkraflugvél þurfti að hverfa frá í gær, gat ekki lent sökum þess hve hvasst var og búið að leggja af þá braut sem oftast var nýtt þegar svona háttaði til. Þá skiptir máli að vera með mjög vel búið sjúkrahús á Akureyri með góða þjónustu. Það skiptir máli líka að geta laðað að gott starfsfólk, fjölbreytt starfsfólk. Þó að við vitum að mönnunin hefur verið áskorun og heldur áfram að vera á alþjóðavísu, það er ekki bara hjá okkur, þá myndi allt svona styrkja starfsemina að mjög miklu leyti, þegar við getum boðið upp á fjölbreyttari þjónustu.

Ég hef talað mikið um fjarheilbrigðisþjónustu og Sjúkrahúsið á Akureyri var hér með um daginn, ég veit ekki hvort við eigum að segja tilraun, það var alla vega með starfsemi þar sem læknir frá Bandaríkjunum sinnti þjónustu í gegnum fjarþjónustu. Þar þótti þurfa að lagfæra þau mál sem snúa að persónuverndaröryggi og ég trúi því að það náist að gera, því að það er mjög mikilvægt þar sem við náum ekki að manna með fólki á staðnum að við getum a.m.k. leyst það sem hægt er að leysa með þessum hætti. Ég held að við séum öll sammála um það, og ég veit það. Við töluðum held ég flest í kosningabaráttunni, og höfum gert það áður og gerum nú aftur segi ég bara hafandi verið hér í tíu ár, um bygginguna á nýrri legudeildarálmu. Það þokast í rólegheitunum. Þó að það þokist of hægt fyrir minn smekk þá þokast þetta samt sem áður áfram. Við erum nýbúin að vera á mjög upplýsandi fundi varðandi sjúkraflug og annað slíkt með starfsfólki Sjúkrahússins á Akureyri og það sýnir manni að þetta er sjúkrahús sem getur verið og er í fremstu röð í þeirri þjónustu sem snýr að slíku flugi. Það þurfum við að efla og við þurfum að fara aftur yfir þann samning sem undirritaður var síðast og vita hvort við getum ekki gert hann betri.

Hér var verið að ræða um hjartaþræðingarnar sem við höfum einmitt rætt líka talsvert áður og við þekkjum liðskiptaaðgerðirnar og annað slíkt sem hefur verið og léttir þá undir í rauninni með Landspítalanum. Sjúkrahúsið á Akureyri er vel til þess fallið að sinna miklu fjölbreyttari þjónustu en þau ná að gera, kannski fyrst og fremst vegna fjármuna en svo auðvitað vegna þess að mannskapur hefur ekki fengist til starfa út af mörgum ástæðum.

Svo fékk ég áhugavert svar sem ég hvet fólk til að lesa um kæfisvefnsrannsóknir á sjúkrahúsinu. Það er umhugsunarefni að sjúkrahúsið treystir sér til þess að framkvæma um 600 rannsóknir á ári en fái bara fjármuni til að sinna 200. Það þýðir auðvitað að fólk fer annað, og hvert fer það? Það fer til Reykjavíkur, a.m.k. eitthvað af þessu fólki og annað nær sér jafnvel ekki í þessa þjónustu heldur bara geymir hana. Það er auðvitað ekki gott. Það er líka eitt af því sem þetta svar sýndi mér, að við getum aðeins reynt að stjaka við því. Í svarinu er dregið fram að einhverju leyti, þó ekki nógu skýrt að mínu mati, hver kostnaðurinn er af því fólki sem kemur hingað af því að það fær ekki þjónustuna fyrir norðan.

Málið er bara þetta: Við þurfum að styrkja Sjúkrahúsið á Akureyri til þess að það geti sinnt því sem það treystir sér til að sinna, og þá meira að segja með þann mannafla sem það hefur núna, en er ekki að gera í dag. Við þurfum að mínu mati að fylgja því vel eftir og þess vegna held ég að þessi tillaga, nái hún fram að ganga, geti sýnt fram á að þetta sé sparnaður þegar horft er til lengri tíma. Við erum svo mikið, eins og framsögumaður kom hér inn á í sínu máli, að færa fólkið til en ekki fagaðilana sem er það sem við eigum að gera. Þó að okkur hafi tekist það að einhverju leyti er það alls ekki nóg. Ég þreytist aldrei á því að minnast á það og monta mig af því fyrir hönd Sjúkrahússins á Akureyri að það var fyrsta stofnunin sem fékk vottun samkvæmt alþjóðlega gæðastaðlinum ISO-9001, fyrsta heilbrigðisstofnunin sem fékk slíka viðurkenningu. Það segir okkur mikið og okkur var kynnt á sínum tíma í hverju það fælist. Það er mjög ítarlegt sem þar fer fram og er undir því og snýr að gæðavottun og það á auðvitað að geta skipt máli þegar verið er að fjalla um hvort stofnun sé tilbúin til að takast á við verkefni.

Eins og ég segi þá átta ég mig á því eins og allir hinir að þetta snýst um fjármuni og hvernig við verjum þeim en þá þurfum við að horfa alla leið til enda, ekki bara á fjárhagsárið fram undan, ekki einu sinni bara á fjármálaáætlunina fram undan heldur til talsvert lengri tíma, því að þetta er þjónusta sem byggist upp til lengri tíma og sinnir gríðarlega stóru svæði. Ég held og ég vona að við getum náð utan um það að þetta sýni fram á að þetta sé sparnaður í kerfinu sem ég held að við séum mörg til í að ná fram, ekki síst að við náum fram betri þjónustu. Ég vona svo sannarlega að þessi tillaga nái fram að ganga, hvort heldur, eins og ég hef sagt áður, eins og hún er lögð fram eða hreinlega að ráðherrann leggi sig fram um að láta skoða þetta.