154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

afbrigði.

[16:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Maður ætti kannski að vera þakklátur fyrir það að hæstv. forseti Alþingis leggi ekki bara til að ráðherrarnir fái að afgreiða ESB-málin eins og þeir vilja. En stjórnarskráin kemur reyndar í veg fyrir það enn sem komið er. Þessi ríkisstjórn hefur sýnt það og sannar aldeilis nú að hún er tilbúin til að innleiða hvaða vitleysu sem er, hversu mikið sem málin skerða fullveldi þjóðarinnar, hversu langt sem þau skerða hagsmuni okkar. Hún er tilbúin að innleiða af áfergju hvað sem Evrópusambandið uppáleggur henni að gera, jafnvel mál sem ráðherrar hafa komið hér upp og lýst eindregnum efasemdum um sem hættuleg mál en á endanum þá ýta menn bara á græna takkann og samþykkja. Enn ein áminningin um að það fer ekki alltaf saman það sem þessir stjórnarflokkar segja og það sem þeir svo gera.

Ég tel ótækt að taka þetta mál á dagskrá hér nú með þeim hætti sem hæstv. forseti leggur upp með.