154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[18:14]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna sem mér fannst vera ágæt. Ég legg áherslu á það sem kom hérna fram í orðum margra hv. þingmanna að í þessu eins og öllu öðru þá þurfum við alltaf að gæta hagsmuna Íslands. Það gerir það enginn fyrir okkur. En það er líka lykilatriði, virðulegi forseti, ef menn ætla að gæta hagsmuna Íslands, að þá verða menn að setja sig djúpt inn í mál. Það er þannig sem menn ná árangri í hagsmunagæslu. Ef menn sjá eitthvað hér í þessu máli þess eðlis að íslenskum fyrirtækjum sé betur fyrir komið í öðru fyrirkomulagi en þessu þá eiga menn auðvitað að segja frá þeim valkosti og færa rök fyrir honum. Ég vona að hv. þingmenn noti nú tækifærið og tali við þá aðila sem örugglega koma fyrir hv. þingnefnd sem standa akkúrat í þessum rekstri, þessum samkeppnisrekstri.

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að við erum með sérstöðu. Við erum í miðju Norður-Atlantshafinu, eina ríkið innan EES sem er þar og við þurfum alltaf að hafa það hugfast þegar við erum að gæta hagsmuna okkar, hvort sem það er í EES-samstarfinu eða Norðurlandasamstarfinu eða hverjum þeim alþjóðasamtökum sem við erum í og tökum þátt í.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér þykir miður hins vegar þegar hv. þingmenn snúa út úr því sem maður segir. En það er allt í lagi. Það sem ég var að reyna að gera, vegna þess að það skiptir máli að útskýra út á hvað þetta mál gengur, var að ég var að reyna að útskýra hvaða hvatar liggi að baki þessu fyrirkomulagi. Það liggur alveg — ef mönnum finnst það bara óskynsamlegt að við tökum þátt í Parísarsáttmálanum og tökum þátt í samstarfi með þeim ríkjum sem eru okkur næst þá eiga menn bara að segja það hreint út, ekkert að skafa af því. Ég sagði aldrei að hér kæmi einhver tæknilausn sem myndi leysa allan vanda. Ég var að segja að fyrirkomulagið væri hugsað þannig og allt þetta fyrirkomulag er til að ýta undir nýsköpun á þessu sviði og nýjar tæknilausnir. Ég get ekki lofað neinni tæknilausn en svo mikið veit ég, virðulegur forseti, að þær eru á fleygiferð. Svo mikið veit ég, virðulegur forseti, að í þessu umhverfi sem við höfum tekið þátt í eru að skapast miklir vaxtarbroddar í íslensku atvinnulífi sem ég hvet líka hv. alþingismenn til að kynna sér. Auðvitað þekkja menn Carbfix-verkefnið, það er oft á tíðum rætt hér, en nú er t.d. fyrirtæki sem heitir Running Tide orðið stærsta fyrirtæki í heimi þegar kemur að kolefnisföngun og er með starfsemi hér á Akranesi. Erlend fjárfesting í þessu fyrirtæki nemur nú þegar u.þ.b. 3 milljörðum kr. Þetta fyrirtæki er í viðskiptum við fyrirtæki eins og Microsoft og marga aðra mjög kröfuharða aðila þegar þessum málum kemur. Við erum að horfa á fyrirtæki eins og Vaxa Life sem er uppi á Hellisheiði sem er nú að velta um milljarði á ári en er að fara í þreföldun og fara á markað bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi núna innan ekki langs tíma, ég held að það sé eftir mánuð, og er nú þegar með vottun fyrir kolefnisföngun og innan fárra ára eða stutts tíma, kannski ekki ára, mun það fanga sem nemur tíu milljónum tonna á meðan allur útblástur Íslendinga er um 14 milljónir. Ísland er í kjöraðstöðu til að hýsa svona starfsemi. Það er mjög ánægjulegt. Ég er svo sannarlega ekki með tæmandi upptalningu, enda myndi ræðutíminn ekki duga í að koma með upptalningu á þeirri nýsköpun og þróun og nýjum tæknilausnum sem eru í gangi bara hér á Íslandi. En svo er auðvitað úti í hinum stóra heimi mjög mikið að gerast í þessu.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta, virðulegi forseti, er að þegar við erum að hugsa um hagsmunamat Íslands, því að það eina sem skiptir máli eru íslenskir hagsmunir fyrir okkur alþingismenn, kannski ekki það eina en alla vega hlýtur það að vera það sem stendur upp úr, þá verðum við auðvitað að fylgjast með því hvað er að gerast og hvaða afleiðingar það hefur í för með sér. Nú er það þannig að við byggjum á mjög góðum grunni, þessum hugrökku kynslóðum sem börðust fyrir fullveldi og sjálfstæði, ekki bara þegar kom að viðurkenningu annarra þjóða heldur líka efnahagslegu sjálfstæði. Þær gerðu það m.a. með því að nýta græna orku. Það voru svo sem orkuskipti eitt að fara í vatnsaflið. Það var svo sannarlega ekki íslensk uppfinning þó svo að við höfum staðið okkur vel í því, en hitaveituvæðingin, orkuskipti tvö, er nokkuð sem fáir ef nokkrir voru að gera í áratugi á meðan við nýttum það með mjög góðum hætti. Nú erum við að fara í orkuskipti þrjú sem gerir það að verkum að það er ekki bara gott fyrir umhverfið, ekki bara efnahagslega heldur líka þjóðaröryggið. Þjóð sem er sjálfri sér nóg um græna, endurnýjanlega orku er þjóð sem er í góðri stöðu.

Ég met það sem hvatningu þegar menn eru að segja að það vanti hér græna orku, sem ég hef margoft sagt frá því að ég tók við þessu embætti. Það sem maður tekur við er að það hefur afskaplega lítið gerst í 15 ár þegar kemur að því að framleiða græna raforku og þess vegna er komið að skuldadögum, það er ekki eitthvað sem þessi ríkisstjórn bjó til, og enn þá lengra tímabil er þegar við skoðum hitaveituna okkar. Ástæðan fyrir því að tveir þriðju hitaveitna í landinu horfa fram á stórar áskoranir er að það hefur lítið verið gert síðustu tvo áratugi í þessu sem við kannski teljum allt of sjálfsagt.

Kannski þegar við hugsum um græna orku þá hugsum við fyrst og fremst um það að taka út olíuna fyrir verksmiðjurnar og taka út olíuna fyrir bílana og setja græna orku inn og það skiptir gríðarlega miklu máli en það er bara partur af þessu. Það að heimurinn, nágrannalöndin og heimurinn, sé að leggja áherslu á grænar lausnir, grænt hugvit, græna orku, það eru gríðarleg tækifæri fyrir okkur Íslendinga. Það er ánægjulegt að sjá að hér eru aðilar, bæði íslenskir og erlendir, sem hafa nýtt sér þau tækifæri, eru hér á Íslandi út af grænu orkunni okkar. Ég nefndi fyrirtækið Vaxa, það er hér út af jarðvarma. Sömuleiðis eru önnur fyrirtæki út af þessum tækifærum þannig að ég vona að við náum samstöðu um það að nýta þessi tækifæri, þjóð og komandi kynslóðum til heilla.