154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

raforkulög.

541. mál
[20:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, hryggjarstykkið í lífinu fyrir austan. Ég skil alveg að það sé það núna en það hefði ekki þurft að vera það, það hefði verið hægt að byggja upp annars konar iðnað í kringum þessa orku sem er framleidd þarna. Ef það hefði verið gert hefði það þýtt aðeins meiri tilkostnað, aðeins meiri fyrirhöfn en það væri miklu blómlegra atvinnulíf, þori ég að fullyrða, af því að þetta er ákveðin áhætta, þetta er að setja öll egg í sömu körfuna. 22% hanga á einum aðila. Hanga á einu eldgosi, jarðskjálfta eða hvernig sem það er. Það er allt of mikil áhætta að setja öll egg í sömu körfuna. Staðan í orkumálum á Íslandi í dag er að alla vega 85% af orkunni fara í stóriðjuna. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að forsendan fyrir uppbyggingunni á dreifikerfinu hefur verið stóriðjan en hún hættir í rauninni að vera forsendan fyrir því, þörfin á því að halda áfram uppbyggingu á dreifikerfinu þegar hún er komin upp í svona 50% af orkunotkun. Þá eigum við, bara upp á jafnvægi að gera, að geta gert betur, þora að taka aðeins betri fjárfestingarákvarðanir til að huga að fjölbreytninni því það er fjölbreytnin þegar allt kemur til alls sem hefur gert íslenskt samfélag eins auðugt og það er í dag. Við erum ekki bara með sjávarútveginn í dag, það er líka orkan, það er líka ferðamannaiðnaðurinn, það er líka hugvitsiðnaðurinn. Það er fjölbreytnin sem kemur til með að skipta máli.