154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða framsetningu. Þetta er nefnilega svo skemmtilegur punktur í samhengi við aðhaldið, 700 millj. kr. í aðhald á tekjulægsta og eignaminnsta fólkið í landinu. Nokkrir milljarðar í fjölgun ráðuneyta. 700 millj. kr. aðhaldskrafa á tekju- og eignaminnsta fólkið í landinu og 2 milljarðar í fjölgun ráðuneyta. Þetta er auðvitað ekki eðlileg framsetning. Það þurfti ekkert þetta aukaráðuneyti. Ég tek heils hugar undir að það þarf að ráðast í endurskipulagningu eða kannski fara bara aftur um eitt kjörtímabil vegna þess að ég er enn þá að átta mig á þessari nýju ráðherraskipan ef ég segi alveg eins og er. Ég er mjög opin fyrir því að það verði gerð endurskoðun á ráðherraembættunum. Ég held að það þurfi ekki svona mörg ráðherraembætti á Íslandi og það sé miklu eðlilegra að fara aftur til fyrri tíðar í því samhengi. Það er í rauninni grátlegt að hugsa til þess að það sé verið að spara við tekjulægsta og eignaminnsta fólkið í landinu svo fólk geti setið hér aukalega til hliðar.