154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:39]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjárlög fyrir árið 2024 og er hægt að koma víða við í slíkri umræðu. Ég ætla að vera kannski meira á almennu nótunum heldur en í einstaka töflum og tölum frumvarpsins en aldrei að vita nema maður komi aðeins inn á það.

Við ræðum fjárlögin í einhvers konar óvenjulegum aðstæðum núna en ef við horfum nú bara ansi mörg ár aftur í tímann þá hafa þau verið ansi mörg fjárlögin sem eru rædd við hinar ýmsu krefjandi aðstæður þar sem ýmislegt hefur komið upp á. Þegar ég kom inn á þing 2013 vorum við enn þá að vinna okkur út úr afleiðingum fjármálahrunsins og losa um fjármagnshöft og vinna í skuldaleiðréttingu og öðru og reyna að koma heimilunum almennilega á lappir eftir bankahrunið. Svo hefur nú í framhaldi af því komið upp heimsfaraldur og svo er náttúran upp á síðkastið farin að segja enn þá meira til sín. Við höfum verið í alls kyns almannavarnaástandi hér undanfarin ár; skriðuföll, snjóflóð og svo jarðhræringar nú á meðan aðrar fjallshlíðar og eldfjöll eru líka að láta á sér kræla þó að það sé ekki komið í gang. Þær eru margar þessar áskoranir sem við höfum á sama tíma og það geisar stríð á fleiri en einum stað í heiminum. Allt hefur þetta bæði bein og óbein áhrif á það sem við erum að gera. Við verðum svolítið að horfa á okkar veruleika í þessu ljósi. Því skiptir miklu máli hvernig við höldum á fjármálum hins opinbera til að geta tekist á við allar þessar áskoranir og hvernig við tryggjum okkar velferð og hag okkar þjóðar, okkar íbúa, í þessari stöðu.

Með þetta fyrir framan okkur þá eru hér lausir kjarasamningar á sama tíma og við erum með of mikla verðbólgu og of háa vexti sem hafa verið að safnast upp hérna eftir heimsfaraldur og stríð. Á því þarf að taka en þar áður var nú mikið hagvaxtarskeið þar sem kjör fólks bötnuðu til muna og staða heimilanna alveg gríðarlega. Við þurfum að komast sem fyrst í þá stöðu aftur og við þurfum að gera allt sem við getum til þess. Ég trúi því að við höfum aðstæður til þess hér á landi. Við þurfum að takast saman á við þessa efnahagslegu stöðu, bæði hér á Alþingi við einmitt gerð fjárlaga, hvernig við förum með opinbert fé og ráðstöfum því, hversu agað það er. Það þurfum við að gera með Seðlabankanum sem heldur á stilliskrúfunum í peningastefnunni og það þurfum við að gera með fólkinu í landinu, þá helst í gegnum kjarasamninga, og með aðilum vinnumarkaðarins þar, að við séum ekki að eyða um efni fram þar frekar en hér.

En jú, það er kannski einmitt vandamálið að við erum hér enn þá eftir heimsfaraldur með fjárlög sem eru að skila í halla. Þó að staðan sé mun betri en búist var við og skuldahlutfallið komið neðar þá er það staða sem við viljum ekki vera í. Ég held það og ég trúi því að við getum farið hraðar en áætlunin gerir ráð fyrir út úr þessari stöðu. En til þess þarf nú að nást pólitísk samstaða, myndi ég halda. Það er um margt hægt að segja að við séum í góðri stöðu. Við erum í góðri stöðu með ríkisfjármálin á marga mælikvarða. Ef við miðum okkur við nágrannaþjóðir okkar og innan OECD og víða er staðan mjög góð hér. Hagtölurnar sýna það en þær sýna á sama tíma samt miklar áskoranir og þetta er farið að hafa veruleg áhrif víða inni á heimilum landsins, í fyrirtækjum landsins og þá sérstaklega í litlum og meðalstórum fyrirtækjum ásamt heimilunum. Þannig að ábyrgð okkar hér er mikil þegar við fjöllum um þetta.

Þá held ég að það sem geti haft mikil áhrif á þetta sé að við náum hér skynsömum kjarasamningum. Þá þurfa þessi fjárlög að vinna með því og því verðum við að passa okkur á því að hafa þau aðhaldssöm og ekki auka á verðbólguna eða álögur á vinnandi fólk sem hefur kannski verið allt of algengt. En ég vildi á sama tíma benda á það að á undanförnum tíu árum höfum við náð að draga á mörgum stöðum úr álögum og skattbyrði á millistéttina og annað og þannig hefur leyst úr kjarasamningum án þess að gera þá of stóra inn á milli.

Við viljum gera betur. Við erum með öflugt velferðarkerfi. Við erum að ná góðum árangri eins og ég fór yfir þar, en við viljum auka velsældina áfram. Við viljum ná hagvextinum upp aftur sem hefur verið að dragast saman. Við viljum þar sem við erum búin að ná góðum árangri ná enn betri árangri. Þó að margir hafi það mun betra en þeir höfðu áður er ekki þar með sagt að við séum búin að vinna fullnaðarsigur. Það eru margir sem lifa enn við skort og við viljum gera betur þar en við viljum líka gera betur fyrir millistéttina og bara alla þegna okkar. Ég hef trú á því að við getum gert margt innan fjárlaganna til þess.

Ein af grunnforsendunum sem við berum svolítið ábyrgð á eru grunninnviðirnir. Það er heilbrigðiskerfið, það eru samgöngurnar og það er menntakerfið og félagslega kerfið, að þetta sé til staðar fyrir fólkið þó að ríkið þurfi ekki alltaf að sinna þessu öllu saman. En það þarf að tryggja svolítið að þetta sé. Við sjáum það núna einmitt í jarðhræringunum í Grindavík að þá þurfum við líka að tryggja að ríkið sé þessi trygging í svona aðstæðum og komi og hjálpi okkur að byggja upp innviðina og að fólk hafi þessar grunnforsendur eins og heimili og tekjur og annað eins og hefur verið brugðist við hér.

Þetta er svona grunnurinn sem við þurfum að bera ábyrgð á, fjármagnið sem er í fjárlögunum, en líka að finna aðrar leiðir til þess að fjármagna eins og í samgöngumálunum. Það er smá aukning í samgöngumálin hér og ég held að við verðum að kalla það ekki fjárútlát heldur fjárfestingu. Við erum að ráðstafa fé mjög vel í öll samgöngumannvirki sem eru hagvaxtarskapandi, búa til byggðafrelsi og hjálpa atvinnulífinu að vaxa til þess að skapa aukna velferð í samfélaginu með auknum hagvexti og draga úr sóun og orkunotkun og lengi mætti telja. Það er líka oft grundvöllur sameiningar byggða, sveitarfélaga, betra aðgengi að opinberri þjónustu með betri samgöngum, svona viss byggðastefna.

Ég hef margoft sagt að með góðum samgöngum þá getum við verið að leysa út mikla krafta í fámennari byggðum en þar er fullt af auðlindum og fullt af tækifærum sem hægt er að nýta. Það getum við séð í orkuöflun og fiskeldi og sjávarútvegi, fullvinnslu sjávarafurða. Gagnaverin eru byrjuð að koma úti um landið, landbúnaðarframleiðslan, matvælaframleiðslan öllsömul, þetta er allt saman hægt að auka með góðum og öflugum innviðum eins og samgöngum, orkuinnviðum, fjarskiptainnviðum og öðru slíku sem við þurfum að sjá til þess að sé hægt að framkvæma. Í sumu af því þarf að fjárfesta af hinu opinbera, annað þurfum við að hafa tækifæri til þess að — og hvetja í gegnum skattkerfið og annað fjárfesta og fyrirtækin sjálf til að fjárfesta þarna og jafnvel þar fá það greitt til baka með notendagjöldum og öðru slíku. Ég held að þannig sé hægt að hraða uppbyggingu þessara innviða og skapa hér mikinn hagvöxt.

Það góða líka við samgöngurnar, af því að við erum að tala hér um verðbólgu og þenslu og annað slíkt, er að það er oft hægt að stýra þessum framkvæmdum einmitt inn á kaldari svæði þar sem þensluáhrifin eru ekki jafn mikil þannig að það er hægt að halda uppi framkvæmdastigi en án þess að það sé kannski að auka á þensluna þar sem hraðinn og framkvæmdirnar eru mestar. Þetta getur verið hálfgert jöfnunartæki hvað þetta varðar.

En ef við ætlum að fara betur með opinbert fé, sem er mér mikið kappsmál, þá getum við gert mjög mikið betur þar. Og þegar við breyttum á sínum tíma lögum um opinber fjármál þá var verið að tala um svona rammasett útgjöld þannig að það átti að reyna að fá framkvæmdarvaldið eða ráðherrana svolítið til að forgangsraða betur þeim fjármunum sem þeir hefðu til ráðstöfunar í mikilvæg verkefni, reyna að fá meiri pólitík í þessa forgangsröðun þannig að mikilvægustu verkin og þau verkefni sem væru búin að vera lengi og væru kannski farin að skila minna eða eitthvað, það væri þá auðveldara að hætta við þau til að geta notað peninginn í nýrri og mikilvægari verkefni og annað slíkt.

Og hafandi setið núna í nokkur ár í fjárlaganefnd, bæði sem aðalmaður og sem varamaður þar áður, þá finnst mér ég einhvern veginn ekki sjá þessi rammasettu útgjöld virka nógu vel. Ef það koma ný verkefni þá er alltaf reynt að koma til fjármálaráðherrans eða í fjárlaganefndina og sannfæra okkur um hversu mikilvæg verkefnin eru og það þurfi verulega að fá nýtt fjármagn í þetta nýja góða verkefni án þess að það sé tekið af einhverju öðru sem er ekki bara jafn mikilvægt og það var þegar það var sett af stað. Það mætti forgangsraða meira innan ramma, það er ekki alltaf hægt og oft þarf nýja fjármuni, það kostar oft að græða og ég skil það vel, er alltaf tilbúinn í þá umræðu. En það má gera meira af því að taka eitt út fyrir annað.

Svo þurfum við líka bara að þora að fara inn í þau stóru kerfi eins og heilbrigðiskerfið, menntakerfið, millifærslukerfin, við höfum verið í vaxtabótakerfinu t.d., í húsnæðisstuðningnum, og gera breytingar, fara þarna inn í þessi kerfi og segja: Þarna erum við með gríðarlega mikla fjármuni, getum við gert einhverjar alvörubreytingar á þessum kerfum þannig að við séum að mæta þörfum fólksins betur, séum að fá meira fyrir peninginn og fáum að þjóna fleirum? Að það séu fleiri sem hafa það betra af því að við notum peninginn sem við höfum til ráðstöfunar öðruvísi en erum ekki alltaf í sama farinu. Og ef við förum eitthvað fram úr þá ræðum við af hverju við fórum fram úr en við ræðum ekki hvernig heildartalan er notuð. Þarna held ég að sé hægt að gera mjög mikið betur á mörgum stöðum.

Ég nefndi hérna vaxtabótakerfið þar sem voru gríðarlegir fjármunir í einmitt vaxtabætur, að greiða niður húsnæðislán fólks sem var oft verðbólguhvetjandi þegar fólk tók hærra lán, keypti sér kannski húsnæði umfram þörf og var að skapa svona ákveðinn þrýsting til verðhækkana á íbúðamarkaði og annað slíkt. Þarna er búið að vera að breyta kerfinu. Það er enn þá mikill húsnæðisstuðningur með því að búa til almenna íbúðakerfið, hlutdeildarlánakerfið og langstærsti stuðningurinn dregur úr verðbólgu, er sparnaðarhvetjandi, sem er að nýta séreignarsparnað skattfrjálst inn á íbúðalán. Þar erum við að draga úr skuldsetningu fólks og þar á meðal fjármagnskostnaði fólksins. Við erum að hvetja fólk til að spara í staðinn fyrir að vera í neyslu úti í einkaneyslunni og skapa hvata til þess og annað slíkt. Það er svona dæmi um kerfisbreytingu þar sem við förum úr kerfi sem er verðbólguhvetjandi og kostar peninga yfir í kerfi sem þjónustar fjölbreyttari hóp fólks, fjölbreyttari úrræði, ekki bara einsleitt úrræði og er ekki jafn verðbólguhvetjandi eða bara dregur frekar úr verðbólgu.

Þetta getum við líka séð og höfum verið að sjá mörg dæmi um innan heilbrigðiskerfisins, þegar við höfum blandað rekstrarform, þegar við erum bæði með hið opinbera og einkarekna þannig að við borgum fyrir þjónustuna en það er mismunandi hver veitir þjónustuna, hvort sem er hið opinbera eða einkageirinn. Það hefur oft verið að auka þjónustuna, auka skilvirkni, draga úr kostnaði heilbrigðiskerfisins og nýta fjármunina mikið betur, erum að fá fagfólkið til að koma með fleiri hugmyndir um hvernig má leysa málin á hagkvæmari og betri hátt fyrir alla. Við þurfum að vera óhrædd við að fara í stórar og miklar kerfisbreytingar og þannig gætum við hagrætt mikið í ríkisrekstrinum, gætum aukið þjónustuna við fólkið og nýtt hverja krónu skattgreiðenda mikið betur.

Við erum að sjá núna mikla umræðu um t.d. menntakerfið og ekki nægilega góðan námsárangur. Þar held ég að við þurfum einmitt að fara í kerfisbreytingar, af því að grunnskólinn á Íslandi er best fjármagnaða skólastigið og við erum með hvað best fjármagnaða grunnskólastigið innan OECD eða þeirra landa sem við berum okkur saman við en árangurinn er ekki samkvæmt því. Við þurfum að vera óhrædd við að spyrja okkur krefjandi spurninga þar, hvar við höfum farið út af brautinni, og ég held að það sé ekki nein ein lausn til við því og það þarf bara að gera miklu betur þar. Ungdómur þessa lands, æska landsins, á það skilið að við hugsum einhverjar alvörukerfisbreytingar þar þannig að við séum að nýta þessa fjármuni í æskuna og framtíð hennar. Það er eitt gott dæmi um þetta.

Annað sem ég vil líka nefna hérna, af því ég er búinn að tala um þessar kerfisbreytingar, er búinn að tala um mikilvægi innviðanna, innviðauppbyggingu og fjárfestingu í því, og annað sem ég tel mjög skynsamlega ráðstöfun á ríkisfé, er að vera í góðu samstarfi við þriðja geirann. Þriðji geirinn gerir tíu krónur úr hverri krónu sem hann fær. Eitt samnefni í þriðja geiranum má segja að séu almannaheillafélög, þar eru náttúrlega íþróttafélögin stærst. Þá er ég eiginlega ekki að tala um sérsambönd íþróttafélaganna heldur íþróttafélögin sjálf sem eru í íþróttahúsunum, eru úti á fótboltavöllum eða inni á vettvangi, inni í pílusalnum eða á skautasvellinu eða hvar það er, gríðarlega mikið af sjálfboðaliðum sem eru að vinna frábært starf fyrir æsku landsins í æskulýðsmálum og í afreksstarfi líka, landkynningu þar af leiðandi og heilbrigði þjóðar, forvarnastarfsemi og öðru slíku. Við þurfum að vökva þennan garð vel.

Svo ég tali nú ekki um björgunarsveitirnar á þessum tímum, eins og ég kom inn á, þegar það er bara stanslaus náttúruvá eða almannavarnaástand hér. Hvar væri íslenskur fjárhagur ef björgunarsveitanna nyti ekki við? Allt það fórnfúsa starf sem þær inna af hendi í sjálfboðavinnu og við Grindvíkingar fáum heldur betur að njóta góðs af núna og höfum fengið síðustu fjögur árin. Við þurfum að tryggja að þessi félög nái að vinna og séu í góðu rekstrarumhverfi með skattalega hvata, með bein fjárframlög og hvetja almenning, og það höfum við verið að gera, gera lagabreytingar til að hvetja almenning og fyrirtæki til að styðja við almannaheillafélög með skattahvötum og öðru slíku.

Það er líka annað erindi sem kom hingað inn til fjárlaganefndar frá Björgunarfélagi Hornafjarðar sem snerist um endurgreiðslu virðisaukaskatts af uppbyggingu á starfsaðstöðu björgunarsveitarinnar. Um þetta hefur oft orðið umræða í þessum sal, að það þarf að hjálpa íþróttafélögunum, björgunarsveitunum og öðrum almannaheillafélögum að byggja upp sína félagsaðstöðu án þess að ríkissjóður sé að taka einn fjórða af öllum kostnaðinum til sín í gegnum virðisaukann. Og ég hef haft þá hugmynd að það væri hægt að mæta þessu með því að hafa einhvers konar sjóð á vegum hins opinbera þar sem þessi félög gætu sótt um styrk til kannski þriggja ára varðandi sínar framkvæmdir og sá styrkur yrði svona til samræmis við upphæðina á virðisaukaskattinum, þeim gjöldum sem ríkið tekur til sín, borga þau þannig til baka til þessara félaga og þá er hægt að hafa betri yfirsýn yfir það að þarna sé ekki verið að byggja upp starfsemi í samkeppnisrekstri við atvinnulífið eða atvinnustarfsemi heldur sé það hrein almannaheillafélagastarfsemi og annað slíkt. Við höfum verið að fara þessa leið fyrir björgunarsveitirnar varðandi eldsneytið og tækjakaup og annað slíkt. Þetta þarf að ná yfir þessa félagsaðstöðu líka og þegar verið er að byggja upp þessi íþróttamannvirki sem eru notuð í æskulýðsstarfi og beinu íþróttastarfi. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt.

Svo er annað félag sem við erum að vísu að setja núna aukafjárveitingar til eins og Hugarafl. Það er fullt af slíkum félögum sem eru með opin úrræði og það eru mörg félög eins og Hugarafl sem eru að veita frábæra starfsemi, SÁÁ er nú annað, Samhjálp og fleiri sem eru að veita fólki úrræði í sínum aðstæðum. Ef hið opinbera ætlaði að sinna öllum þessum úrræðum myndi það kosta marga milljarða. Þörfin er gríðarleg og hún eykst þannig að við þurfum að finna gott kerfi til að aðstoða þessi almannaheillafélög eins og hægt er, eins og þessar 10 millj. kr. til Hugarafls. Ég held að það sé mikilvægt að það afgreiðist hratt, þurfi ekki að bíða lengi og vera í miklum og ströngum samningagerðum og annað slíkt. Þörfin er gríðarleg núna, sérstaklega í svartasta skammdeginu yfir veturinn og annað slíkt. Orka þessara félaga þarf að fara í að hjálpa fólkinu en ekki að lifa næstu mánaðamót af. Það er algjörlega á hreinu.

En það er líka hægt að auka tekjur ríkissjóðs á ýmsa vegu. Ég vildi byrja á að benda á það að t.d. með skattalækkunum þá halda margir að við séum að gefa eftir tekjur ríkisins. En oftar en ekki verður það til aukinnar tekjuöflunar ríkisins. Við höfum t.d. verið að lækka tekjuskatt á laun undanfarin ár og við höfum lækkað líka almenna virðisaukaskattsþrepið o.fl. og þessar tekjur hafa aukist. Við lækkuðum nýlega erfðafjárskattinn og þrepaskiptum honum og svona frítekjumörk og slíkt. Erfðaskatturinn hefur eiginlega bara margfaldast síðan þá. Þetta er mikil kjarabót fyrir fólkið í landinu líka, lægri skattar, en það verður einhvern veginn til þess að það kemur meira súrefni þannig að það verða meiri umsvif sem skila ríkissjóði meiri skatttekjum. Við þurfum að horfa vel til þess að lækka álögur á fólk og fyrirtæki til að koma inn auknu súrefni.

Auðlindanýtingin er alger grunnforsenda þess að við náum að halda því velferðarstigi sem við erum með í dag. Ef við ætlum að auka lífsgæðin hér áfram verður það ekki gert nema með aukinni auðlindanýtingu. Þar verðum við að vera áfram dugleg að nýta fiskiauðlindirnar okkar sem við höfum verið að gera og við erum alltaf að skapa meiri og meiri verðmæti úr. Verðmætaaukningin þar er gríðarleg af því að sjávarútvegsfyrirtækin hafa náð að skila afgangi sem hefur verið notaður í nýsköpun og mesta nýsköpun á Íslandi er einmitt í sjávarútvegi, hefur verið það hingað til, sem skilar sér svo í auknum verðmætum af þessari auðlind þjóðarinnar sem fiskurinn í sjónum er. Við þurfum að halda áfram með uppbyggingu á lagareldi, hvort sem er í sjó eða á landi. Þar eru gríðarleg tækifæri og útflutningsverðmætin orðin gríðarleg í því. Þar er líka mikil nýsköpun fram undan og tækifæri. Það þarf alltaf meira prótein og næringu fyrir heiminn, í stækkandi heimi. Þar getum við sótt það.

Allir þeir gestir sem vilja koma og skoða okkar yndislegu náttúru og flottu — við þurfum að vera óhrædd við að hafa þar notendagjöld til þess að byggja upp aðstöðu til að stýra þessu, til að vernda okkar náttúru, gegnum stýringu og til þess að tryggja upplifun þessa fólks og annað slíkt. Það er hægt að gera með notendagjöldum eins og við gerum t.d. á Þingvöllum þar sem rekstur Þingvallaþjóðgarðs er sjálfbær, má segja, með notendagjöldum og er samt sem áður einn stærsti ferðamannastaður landsins og fjölgar bara gestunum þrátt fyrir notendagjöldin þar og þar er líka tryggt um öryggi og verndun staðarins og honum gert hátt undir höfði.

Svo má ekki gleyma í auðlindanýtingunni orkuöfluninni. Við Íslendingar kunnum að búa til orku og nýta auðlindirnar okkar án þess að ganga um of á náttúruna. Við kunnum að gera þetta í sátt og samlyndi og nú er bara þannig að við erum komin með skuldbindingar í loftslagsmálum, við erum komin með markmið í loftslagsmálum, en ég vil líka benda á það að því hraðar sem við komumst í orkuskipti hér á landi því efnahagslega sterkari verðum við og drögum úr innflutningi á jarðefnaeldsneyti og erum að fara að framleiða okkar eldsneyti miklu meira sjálf. Við erum að draga þá líka úr kostnaði vegna loftslagsmálanna og loftslagsbókhalds og annars sem við tökum þátt í. Við erum að draga úr kostnaði líka á ferðalögum hér, hvort sem er með flugi, í skipum eða stærri farartækjum. Við þurfum að fara í orkuöflun til að geta farið í þessi orkuskipti, þessi stóru orkuskipti, í gegnum hvort sem það er ammoníak eða metan eða rafmagn eða hvað það er. Atvinnulífið og fyrirtækin eru tilbúin í nýsköpun. Þau þurfa ekki að koma með allar lausnirnar en þau eru tilbúin að fara þessa leið. Þau fá bara ekki orkuna, fá ekki leyfin og annað slíkt.

Ef við ætlum ekki að fara í frekari orkuöflun á Íslandi þurfum við bara að fara strax að búa okkur undir að draga úr velferð íslenskrar þjóðar. Okkar lífsgæði munu dragast aftur úr. Við munum ekki ná upp hagvexti nema með aukinni orkuöflun. Það er algerlega á hreinu. Það er bara að fara að gerast, því miður, nú í vetur að það er verið að skerða orku til fyrirtækja sem þýðir aukna olíunotkun hér á landi. Það þýðir aukinn innflutning á jarðefnaeldsneyti, minni viðskiptajöfnuð þar af leiðandi, og það þýðir minni hagvöxt hjá fyrirtækjunum og allt slíkt. Þannig að þetta er, myndi ég segja, neyðarástand og ég vil benda á það að íslenskt velferðarkerfi, íslenskt dreifikerfi raforku og flutningskerfi er byggt upp af því að við höfum náð að selja til stórnotenda orkuna okkar. Þannig höfum við náð að byggja upp íslenskt velferðarkerfi. Um það verður ekki deilt. Þá verðum við að vera með augun opin fyrir því þegar við ræðum hér um efnahagsmál þjóðarinnar, fjármál þjóðarinnar, að nú í þessum töluðu orðum er hættuástand á Reykjanesskaga þar sem orkuver sem framleiðir 75 MW af raforku, ásamt heitu vatni, það heita vatn sem kemur frá því orkuveri verður ekki framleitt öðruvísi en með 200 MW af rafmagni til að hita það vatn upp eða 2 milljarða olíukostnaði á mánuði, ef það orkuver fer út er eins og það séu 275 MW að fara út af kerfinu. Við getum, held ég, ekki ímyndað okkur hvaða stærðir í hagsögunni það yrðu.

En við skulum ekki gleyma því að fyrir ekki svo mörgum árum síðan, tveimur eða þremur, ég man það ekki alveg, þegar Öræfajökull og Vatnajökull voru eitthvað að hrista sig, þá voru uppi miklar áhyggjur af því að það gæti orðið rof í virkjunum okkar á Þjórsársvæðinu þar sem yfir 60% af raforku þjóðarinnar eru framleidd. Ég veit ekki hvernig við ætlum að takast fjárhagslega á við slíkt áfall, þar sem við erum að tala um fjármál núna. Ég held að við verðum að spýta í lófana og fara í mjög mikla orkuöflun ef hér á ekki illa að fara á mörgum sviðum, fyrir velferðarkerfinu okkar, fyrir fjárhagnum okkar, fyrir atvinnulífinu og hagvexti þessarar þjóðar. Þetta er bara ein frumforsenda þess að fjárlög næstu ára gangi eftir, að hér förum við í fjárfestingu í orkuöflun.

Svo að lokum: Til þess að draga úr umsvifum hins opinbera, draga úr kostnaðinum en á sama tíma draga úr áhættunni og um leið draga úr skuldsetningu — við þurfum að greiða miklu meira niður skuldir til að draga úr vaxtakostnaði. Við þurfum að komast út úr halla ríkissjóðs. Við þurfum að komast í fjárfestingu í mikilvægum innviðum eins og ég fór inn á. Það verður hægt að gera með sölu ríkiseigna og minnkandi umsvifum hins opinbera. Þar hef ég nefnt að ríkið myndi selja stóran hlut í Isavia en Isavia borgar t.d. ekki arð þannig að þar erum við með bundna fjármuni sem auka þá áhættu ríkissjóðs ef eitthvað kemur. Ég held að við eigum að fá fagfjárfesta inn þar með okkur, við eigum enn þá í Isavia, við höfum enn þá eitthvað um það að segja, ég vil benda á það að flugbrautirnar er ekki undir Isavia, ekki í efnahagsreikningi Isavia, þannig að við fáum þar fagfjárfesta. Þá losum við um kannski allt að 100 milljarða til að nota í að greiða niður skuldir og mikilvæga innviðafjárfestingu en á sama tíma höfum við enn þá stjórn á alþjóðaflugvellinum okkar með fagfjárfestum og sú uppbygging heldur þar áfram og örugglega á hagkvæmari og skynsamlegri hátt en að ríkið sé eitt að vesenast í því.

Ég vil nefna hér að við höfum fullt af ríkisjörðum og ríkislandi sem er bara einhvern veginn fé án hirðis, vil ég meina. Ég hef alltaf sagt að ríkið sé versti landeigandinn. Þar eigum við að selja þessar eignir, fá einkaframtakið til að gera úr því verðmæti og nýta þetta og hugsa um þetta. Það er íslenski bóndinn sem hugsar hvað best um landið og græðir það og gæðir, þannig að við þurfum að hugsa um það.

Það er ein stofnun sem er komin með, held ég, fjárframlög á sjöunda milljarð, Ríkisútvarpið, á meðan það er víða föst u.þ.b. 2% hagræðing, núna 3% hagræðing, ár eftir ár, á stofnanir ríkisins til þess að reyna að fara betur með fjármunina. Það eru miklar áskoranir hjá einkareknum fjölmiðlum og bara fyrirtækjum í landinu en á sama tíma er ein stofnun sem fer einhvern veginn aðra leið, Ríkisútvarpið sem fær sína samninga verðbætta. Ég gæti nú sanngirni, það fær þá ekki launabætta heldur verðbætta en svo með fjölgun útsvarsgreiðenda þá aukast líka framlög til Ríkisútvarpsins en það kemur engin hagræðingarkrafa neins staðar á móti. Þetta einhvern veginn getur ekki gengið þannig að á meðan Ríkisútvarpið stækkar alltaf á samkeppnismarkaðnum við einkareknu fjölmiðlana og gerir þetta þá fær það ekki einu sinni hagræðingu eins og aðrar menningarstofnanir, aðrar stofnanir hins opinbera og allt niður í heilbrigðis- og félagsstofnanir og ýmislegt. Þarna er hægt að spara töluverða fjármuni og um leið bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla með því að Ríkisútvarpið verði ekki alltaf stærri aðili á markaðnum.

Íslandspóstur. Ég hef margoft rætt það hér í þessum stól að eftir því sem við látum Íslandspóst fá meiri peninga í alþjónustunni versnar þjónustan; draga úr þjónustunni, hætta með alþjónustu og hætta hinu og þessu, fækka dreifingardögum. Á meðan er mikil nýsköpun og þróun í alls kyns heimsendingum og pakka- og jafnvel bréfaþjónustu þannig að við þurfum að skoða hvort við getum veitt betri þjónustu fyrir minni fjármuni úr ríkissjóði og selja bara Íslandspóst eða leggja hann niður og selja eignirnar. Það er hægt að losa um fjármuni og minnka. Þetta eru nokkur dæmi, ég gæti haldið lengi áfram um þetta og nefnt hér allar eignir ÁTVR sem eru örugglega einhver hundruð milljóna sem væri hægt að minnka, Orkusalan og ég veit ekki um allt þetta en það er miklu fleira sem er hægt er að gera og við þurfum að gera.

Eins og ég fór hérna yfir áðan, í öllum samanburði og almennt séð erum við með sterkan og öflugan ríkissjóð þar sem skuldahlutföllin lækka, afkoman hefur verið betri undanfarin ár en búist var við þrátt fyrir allar þær stóru og miklu áskoranir sem við höfum þannig að við þurfum að vera viðbúin þessum áskorunum algerlega. En við getum gert betur og það er alltaf hægt að gera betur og ég hef farið yfir nokkur atriði í því. Það eru enn þá ógnir í náttúrunni og annað slíkt sem við þurfum að vera viðbúin og geta tekist á við. En fyrst og fremst þurfum við að sýna ábyrgð fyrir heimilin í landinu og fólkið í landinu til að tryggja velferð og betri lífskjör og það er hlutverk okkar hér á Alþingi.

Svo munu koma hér frekari útfærslur á mikilvægum málum eins og varðandi stuðning við bændur síðar í þessari 3. umræðu, líka kannski í fjáraukalögunum, og varðandi stuðning við Grindavík þar sem ég vil einmitt enda, á stöðunni varðandi Grindavík. Það er líka þjóðhagslega mikilvægt að þar takist vel til í endurreisninni, að það samfélag komi öflugt og kröftugt til baka af því að Grindavík er samfélag þar sem skuldsetning hefur ekki verið mikil, hvorki hjá heimilum né fyrirtækjum. Grindavíkurbær eða samfélagið þar hefur aldrei náð að manna öll störfin. Ef ég tek bara dæmi af Bláa lóninu, þar vinna 800 manns, það eru ekki nema 150 af þeim búsettir í Grindavík. Það eru 650 sem koma utan Grindavíkur til Grindavíkur og sækja vinnu. Þetta á líka mikið við í sjávarútvegsfyrirtækjum, í orkufyrirtækjum eins og HS orku og fullt af öðru slíku þannig að þarna er verið að vinna mikið af auðlindum, eins og í sjávarútvegi þar sem stórum hluta af útflutningsverðmætum í botnfiski er landað í Grindavíkurhöfn. Stór partur af veiðigjöldunum kemur þaðan. Orkuöflunin, eins og ég hef farið inn á, heita vatnið og kalda vatnið, stærstu ferðamannastaðirnir og lengi mætti telja, þannig að þetta hefur áhrif á allt íslenskt samfélag á meðan þetta samfélag er ekki virkt. Því skiptir miklu máli að koma því á fullum krafti til baka. Grindavíkurbær var eitt það sveitarfélag sem sýndi bestu ársreikninga allra sveitarfélaga ár eftir ár og ég veit að um leið og uppbyggingin kemst þar af stað verður Grindavík fljót að komast í fyrri stöðu og farin að skaffa hér vel í ríkiskassann eins og áður. Ég hlakka til þeirra tíma en þakka um leið þann mikla stuðning sem við í samfélaginu í Grindavík höfum fengið frá Alþingi og þjóðinni allri.