154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Eitt gott dæmi um þetta er jólabónusinn sem er búinn að vera árlegur núna nokkur jól í röð fyrir öryrkja. Það var 2020 eða eitthvað svoleiðis, eða 2019, 2020, sem hann var fyrst. Þá var greidd út fjárhæð, eingreiðsla sem skerti ekki örorkubætur til allra öryrkja og kölluð jólabónus. En vandinn var sá að sú upphæð var peningur sem var þegar búið að lofa öryrkjum í kerfisbreytingar sem tókst ekki að gera þannig að eftir árið var afgangur af þessum lofuðu 4 milljörðum sem voru — 2,2 af þeim milljörðum fóru í lækkun krónu á móti krónu og ekki náðist að ráðstafa afgangnum og þá var hann gefinn í jólabónus einhvern veginn eins og það væri rosalega mikil gjöf. Það var þegar búið að lofa þessum pening.

Svo viðhélst þetta og þá var aftur gefinn jólabónus árið eftir og árið eftir o.s.frv. og í fyrra þá spurði ég við gerð fjárlaga um þennan jólabónus sem er verið að veita aftur núna: Á að veita jólabónus á næsta ári? Það var ekki gert ráð fyrir honum í fjárlögum, hann var að koma núna aukalega í fjáraukalögum og það er ekki verið að gera ráð fyrir honum á næsta ári. Þrátt fyrir að við séum að glíma við fjárlög 2024 núna er ekki gert ráð fyrir jólabónus þá. Á það síðan að birtast bara allt í einu upp á von og óvon næsta desember? Það eru svona atriði sem gera kerfið þannig að það virkar ekki. Þess vegna finnst mér ekki hægt að segja bara að það sé ekki hægt að gera kerfi sem virkar því að það eru líka atriði í því sem eru einfaldlega svo gölluð að þau skemma það. Endalausar skerðingar fram og til baka, sem er fátæktargildra fyrir fólk; ef það reynir að gera eitthvað, gera eitthvað aðeins meira þá er því bara refsað. Þannig að kannski þurfum við að hugsa einmitt aðeins öðruvísi og reyna að hanna kerfi sem virkar. Það er hægt, veit ég.