154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:46]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir ræðuna sem var auðvitað flutt með mjög skorinorðum hætti eins og við mátti búast af hv. þingmanni. Ég heyrði að þingmaðurinn var að velta vöngum yfir því hverjir myndu nú stökkva á vagninn og greiða atkvæði með þeim breytingartillögum sem flokkurinn hyggst leggja fram þegar við greiðum atkvæði um fjárlögin. Ég er ekki búinn að kíkja á allar tillögurnar en sumt hef ég kíkt á og get alveg sagt hv. þingmanni það hér og öðrum að ég ætla að styðja þær tillögur sem koma fram um að setja aukið fjármagn í SÁÁ, Krýsuvík og Hlaðgerðarkot, ofur einfaldlega með þeim rökstuðningi að þótt ég telji að ríkið eigi að fara varlega í ný útgjöld þá er þarna um að ræða ákveðið neyðarástand sem þarf að bregðast við. Það er ekki bara neyðarástand út af náttúruhamförum hérna á Íslandi. Það er neyðarástand þarna úti þegar kemur að fíknisjúkdómum sem gerir það að verkum að við erum að missa 80–100 einstaklinga á ári beint úr þeim sjúkdómi þannig að ég mun vera með Flokki fólksins á þeim vagni.

Það sem mig hins vegar langaði svolítið til þess að fá fram hjá hv. þingmanni svona til að byrja með er varðandi hækkun á bankaskatti sem er hryggjarstykkið í þeirri tekjuöflun sem Flokkur fólksins ætlar að fá á móti þeim útgjöldum sem lagt er til að verði ráðist í. Þarna er verið að tala um mjög mikla hækkun á bankaskatti og ef ég man rétt er talað um að ríkið geti þarna innheimt auka 30 milljarða. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Hefur hv. þm. Inga Sæland engar áhyggjur af því að svona mikil hækkun á bankaskatti snúist upp í andhverfu sína að því leytinu til að bankarnir velti þessu beint áfram til þeirra sem taka lán hjá bankanum í hærri vöxtum og í hærri þjónustugjöldum? Mun ekki svona mikil skattahækkun á einu bretti ofur einfaldlega bíta í skottið á sér og níðast enn frekar á þeim sem nú þegar standa höllum fæti í samfélaginu vegna vaxtaokursins?