154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og mér er létt, þetta hefur örugglega verið misheyrn hjá mér nema það hafi verið mismæli hjá hv. þingmanni en mér finnst líklegra að mér hafi misheyrst. En ég tek undir orð hv. þingmanns varðandi mat hans á stöðunni. Mig langar í því samhengi að spyrja hver afstaða hv. þingmanns, sem nú er varaformaður fjárlaganefndar, er til ábyrgðar núverandi ríkisstjórnarflokka á stöðunni. Nú hafa þessir flokkað starfað saman, það er komið á sjöunda þing, flokkar sem í sögulegu samhengi hefðu talist svona helstu varðmenn íslensks landbúnaðar, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Vinstrihreyfingin – grænt framboð, þótt sú hreyfing sé auðvitað yngri en flokkarnir tveir sem halla í hundrað ár og þar um kring. En hver er afstaða hv. þingmanns og varaformanns fjárlaganefndar til ábyrgðar núverandi stjórnvalda á þeirri grafalvarlegu stöðu sem blasir við íslenskum landbúnaði nú um stundir og þróuninni frá þeim tíma er ríkisstjórnin tók við í lok árs 2017?