154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Ég átti eftir að fjalla aðeins um efnahagskaflann í nefndaráliti mínu. En ég ætla að byrja samt á því þar sem ég hef ekki nema tíu mínútur að drífa mig í að fara yfir breytingartillögurnar fyrst. Píratar gera nokkrar breytingartillögur. Við leggjum til að hækka fjármagnstekjuskatt upp í 30%. Ástæðan fyrir því er í rauninni hið ákveðna bil á milli tekjuskatts almennt og fjármagnstekjuskatts og hvernig það er reiknað, á milli tekjuskatts fyrirtækja og yfir í fjármagnstekjuskatt þegar það er greiddur út arður og margfeldið þarna á milli. Það endar í því í rauninni að fólk er að borga lægra skatthlutfall þegar það greiðir fjármagnstekjuskatt ef tekið er tillit til hæsta tekjuskattsþrepsins og útsvars, þannig að í rauninni er þetta tillaga um að bæta við útsvari á fjármagnstekjuskattinn. Í rauninni endar greiðslan fyrir þetta, af því að við leggjum líka til að hækka persónuafslátt fjármagnstekjuskatts um 100.000 kr., bara á efstu tekjutíundinni. Það er eiginlega bara efsta tekjutíundin sem hefur tök á því að greiða sér fjármagnstekjur sérstaklega sem arð í rauninni í staðinn fyrir laun. Þannig að við erum að reyna að fjarlægja þennan hvata til að nota fjármagnstekjur sem launagreiðslur frekar en einfaldlega launagreiðslur. Þar með er gert ráð fyrir að fjármagnið sem kemur inn í gegnum fjármagnstekjuskattinn renni inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í rauninni sem útsvar, sem það myndi gera ef fólk myndi velja að greiða sér þennan fjármagnstekjuskatt út sem tekjur. Þá væri tekið af því útsvar og væri ekkert mál með þetta.

Við gerum einnig tillögu um 420 millj. kr. framlag til héraðssaksóknara til að efla embættið og tryggja málsmeðferðarhraða. Það hefur verið þörf á því. En síðan erum við með tillögur sem koma inn í orkuskiptin. Það eru 3 milljarðar í framlag vegna orkuskipta, þar af fari 2,4 milljarðar óskiptir til orkuskipta í almenningssamgöngum um allt land en 600 milljónir fari sérstaklega í orkuskipti hjá Strætó. Það er út af því að Strætó þurfti að taka fé úr orkuskiptasjóðnum hjá sér til þess að reka sig í Covid, í rauninni að beiðni stjórnvalda. Þetta snýst um að bæta upp þann kostnað sem Strætó þurfti að fara í til þess að halda Strætó gangandi. Svo er gerð tillaga um 3 milljarða í framkvæmdafé til hjóla- og göngustíga og þeirri fjárhæð skipt þannig að 1 milljarður fari í framkvæmd þeirra verkefna sem eru skipulögð samkvæmt samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, 1 milljarður til uppbyggingar hjóla- og göngustíga í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og 1 milljarður til uppbyggingar hjóla- og göngustíga annars staðar á landinu.

Svo er gerð tillaga um 420 millj. kr. framlag til að efla Samkeppniseftirlitið, þetta er frekar nauðsynleg aðgerð. Það kom í ljós eftir skýrsluna og niðurstöðuna varðandi Samskip og Eimskip að það er nóg sem þarf að gera í samkeppniseftirliti á Íslandi. Við Píratar viljum hafa eftirlit með valdinu og það eru þessir aðilar sem eru með peningavaldið sem þarf svolítið að fylgjast með, að þeir séu að nýta það vald málefnalega.

Það er gerð tillaga um 800 millj. kr. framlag til loftslagssjóðs en þetta er í rauninni það fjármagn sem við erum að fá vegna sölu loftslagsheimilda, það sem kom í fjárlagafrumvarpi. Við erum að reyna að færa þetta til loftslagssjóðs, auðvitað, það er mjög einfalt.

Síðan er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra fái ekki að selja eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, ekki endilega af því að það er nýr fjármála- og efnahagsráðherra heldur bara almennt séð af því að við búumst ekki við því að það náist traust til að selja banka á næsta ári. Þetta er frekar einfalt í rauninni.

Við gerum tillögu um 115 millj. kr. framlag til að efla íslenskukennslu fyrir innflytjendur, tvöfalda framlagið sem ríkisstjórnin tók fyrst út en bætti svo inn, þannig að við erum að tvöfalda miðað við hvernig það var. Við erum einnig líka með tillögu, hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson er með tillögu úr 1. umræðu, sem bætir 115 milljónum í viðbót og það er ekki vanþörf á.

Við gerum tillögu um 50 millj. kr. framlag. til Samtakanna '78 og gerum tillögu um 1 milljarð til lögregluembættanna um allt land til þess að efla mönnun í almennri löggæslu og rannsóknarvinnu. Það hefur verið kallað eftir þessu og merkilegt nokk er einhvern veginn aldrei brugðist við.

Við gerum tillögu um 1 milljarð í húsnæðisbætur fyrir leigjendur vegna verðbólguhækkunar á leigu. Það þarf að gera meira þarna eins og í barnabótunum og vaxtabótunum o.s.frv. Samfylkingin er með tillögur um það sem við tökum undir almennt séð, en gerum sérstaklega tillögu um leigubæturnar, það þurfti að koma því aðeins inn líka.

Við gerum einnig tillögu um að fella á brott fjárheimildir vegna sóknargjalda bæði á tekju- og gjaldahlið, bara burt með lög um sóknargjöld. Það eru 3,7 milljarðar sem koma ekki inn í ríkissjóð þar af því að við viljum lækka tekjuskattsþrepið í rauninni um þá upphæð, tekjuskattur fólks lækkar og það þarf þá ekki að borga sóknargjöld í gegnum ríkið til þeirra trú- og lífsskoðunarfélaga sem það er skráð í heldur getur fólk bara borgað beint og þess vegna verið aðilar að fleiri félögum ef það vill, mér er alveg sama.

Að lokum er gerð tillaga um að fella á brott fjárheimildir til þjóðkirkjunnar vegna kirkjujarðasamkomulagsins og í rauninni að fella brott opinberan stuðning við byggingu kirkna. Hluti af kirkjujarðasamkomulaginu var: Gjörið svo vel, kirkjur, þjóðkirkjan, þið getið bara séð um þetta sjálf. En einhverra hluta vegna er ríkið enn þá að byggja kirkjur fyrir aukapening, sem er umfram kirkjujarðasamkomulagið. Við getum hætt þessu bara og kirkjan getur haft þetta eins og henni hentar, innheimt sín sóknargjöld o.s.frv. bara sjálf. Það er algjör óþarfi að ríkið sé einhver milliliður þar.

Ég bjóst við að hafa 20 mínútur til þess að fara yfir þetta, ég ætlaði að fara líka aðeins yfir efnahagskaflann. Við erum með fleiri tillögur, þær koma inn á bandorminn, en bara til þess að fá heildarsamhengið þá erum við líka að gera tillögu um að hækka kolefnisgjaldið um 50%, það er langt undir markaðsverði í dag, og tilgangurinn er að þeir sem menga borgi. Það er mjög einfalt í rauninni. Við gefum skattrannsóknarstjóra auknar heimildir til að koma enn frekar í veg fyrir útgáfu tilhæfulausra reikninga. Og það er ekki nóg með að við hækkum persónuafslátt fjármagnstekna heldur einnig að persónuafsláttur fjármagnstekna sem ekki er notaður í lok árs, alveg eins og persónuafsláttur tekjuskatts, færist yfir á almennan persónuafslátt tekjuskatts í lok árs þannig að ef fólk hefur ekki verið með neinar fjármagnstekjur þá eru það í rauninni 400.000 kr. aukalega í persónuafslátt fyrir árið. Þá erum við komin með þær breytingartillögur í heild sinni.

Ég læt þetta duga þar sem tíminn er að verða búinn, ég sé til hvort ég reddi ekki bara umræðunni um efnahagsmálin í einnar mínútu ræðum um atkvæðagreiðsluna, sjáum hvernig það verður, eða kannski í 3. umræðu.