154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:44]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að greiða atkvæði með þessari tillögu. Í fyrsta lagi vil ég benda á að Ísland setti sér sjálfstætt markmið um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040 en það er ekki verið að setja neitt púður í orkuskipti í samgöngum. Það er eingöngu verið að leggja áherslu á rafmagnsbílavæðingu Íslands sem er bara að fara að nýtast einum hópi fólks og ekki öðrum. Þetta er ekki til þess fallið að flýta fyrir orkuskiptum og heldur ekki til þess fallið að ná orkuskiptunum ef við einblínum bara á einkabílinn og einblínum bara á efri millistéttina. Þannig að ég kýs með þessu og vona að ég sjái meiri metnað hjá ríkisstjórninni til þess að ná þessum markmiðum fyrir árið 2040. Annars verðum við að athlægi á alþjóðavísu. Kannski hefði verið betra að vera í takt við Evrópu og miða á árið 2050.