154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:36]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Sigmari Guðmundssyni. Ég velti fyrir mér: Hvað er það sem getur mögulega fengið ríkisstjórn til að taka ekki utan um þann málaflokk þegar við vitum að fólk er að deyja á biðlistum? Við vitum að þetta er fárveikt fólk. Hvernig getur maður eiginlega ímyndað sér að nokkur stjórnvöld skuli ekki skipta sér af því og láta það bara danka og fá 50 dána ótímabærum dauða á hverju einasta ári þegar það kostar einhverja krónur að taka utan um málaflokkinn? Eru þetta fordómar gagnvart fíknisjúkdómum? Hvað í ósköpunum gæti mögulega orðið þess valdandi að við reynum ekki að taka utan um málaflokkinn og gera það a.m.k. af einhverri skynsemi? Þetta er svo galið, virðulegi forseti. Ég veit eiginlega ekki á hvaða vegferð þessi ríkisstjórn er en hún er alla vega ekki að stýra þessari þjóðarskútu til heilla og hagsmuna fyrir samfélagið í heild sinni. Það er nokkuð víst.