154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[16:58]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir fór ágætlega yfir þetta. Þegar við horfum yfir stóru myndina og stóra sviðið þegar fjárreiður ríkisins eru annars vegar, og getum þá talað um yfirstandandi ár og líka það sem er í fjárlögum fyrir næsta ár, þá er um að ræða alveg kolranga forgangsröðun. Ég held að það segi eiginlega stærstu söguna um það á hvaða stað ríkissjóður er varðandi lántökur eða skuldir ríkisins á þessu ári og því næsta, að vextir af þeim eru samanlagt rúmlega 200 milljarðar kr. Það segir allt um það á hvaða leið þessi ríkisstjórn er. Það er ekki verið að bregðast við með nægjanlegum hætti þannig að hér sé hægt að ná niður vaxtastigi með því að fara í aðgerðir með Seðlabankanum til að ná niður verðbólgunni. Svona hefur þetta verið og því miður er það þannig að það eru engin teikn á lofti um að þetta muni breytast.