154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[15:24]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Í þessu kristallast kannski bara áherslumunur okkar jafnaðarmanna og þeirrar ríkisstjórnar sem er nú við völd. Ég fæ þau svör hér að það séu þrír kaflar í því að búa til þekkingarsamfélag; markmið í háskóla- og vísindastarfi, nýsköpun, fjarskipta- og upplýsingatækni, öryggi — þetta er fullorðna fólkið.

Virðulegur forseti. Ef þetta væri tillaga jafnaðarmanna, Samfylkingarinnar, þá væru hér fjórir kaflar og fjórði kaflinn væri fyrsti kaflinn og hann væri gjörsamlega, fullkomlega lykilgrunnstoðin að því að búa hér til öflugt þekkingarsamfélag þar sem kæmu áherslur inn í hugvísindi, félagsvísindi, menntunarfræði, inn í mikilvægi þess að treysta velferðarkerfið okkar þannig að það geti sinnt því mikilvæga hlutverki að búa til öfluga íslenskukennslu á fyrstu árum okkar skólafólks, þ.e. í leikskólakerfinu.

Ég held bara að það sé algjör áfellisdómur, leyfi ég mér að segja, og fullkomlega óskynsamlegt (Forseti hringir.) að hafa gert þá ráðstöfun í íslensku menntakerfi að tvístra því með því að taka (Forseti hringir.) háskólann úr menntamálakerfinu. Hann þarf að vera menntastofnun, hann er ekki til þess að þjóna hjólum atvinnulífsins fyrst og fremst.