154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[13:40]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Stefnan um þekkingarsamfélag á Íslandi byggir á sýn um að lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífinu sé að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Í því felst að hægt sé að vaxa úr sveiflukenndu efnahagsástandi með því að beina sjónum að alþjóðageiranum en honum tilheyra öll fyrirtæki sem fá útflutningstekjur sem byggja á öðru en okkar takmörkuðu auðlindum. Við erum ekki á neinum byrjunarreit hér með þessari góðu þingsályktunartillögu. Við höfum náð ótrúlega góðum árangri í þessum geira á síðustu árum vegna þess að það hefur markvisst verið stutt við vísindastarf og nýsköpunarstarf. Við ætlum að halda áfram og við setjum markið enn hærra og þessi þingsályktunartillaga sem hér er til atkvæða hjálpar okkur einmitt á þeirri vegferð að tryggja það að þekkingarsamfélagið og alþjóðageirinn verði grunnstoð í efnahagslífi Íslendinga.