154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

raforkulög.

541. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, forgangsraforka, á þskj. 795. Með frumvarpinu eru lagðar til tímabundnar breytingar á raforkulögum sem lúta að því að tryggja orkuöryggi heimila og fyrirtækja og koma í veg fyrir að raforku sem þeim er ætluð sé ráðstafað til stórnotenda.

Raforka er hluti af einhverjum mikilvægustu grunninnviðum samfélagsins og því er raforkuöryggi samofið þjóðaröryggi, sterku og þróttmiklu atvinnulífi, góðum lífskjörum og jafnvægi í byggðum landsins. Sé því ógnað er það skylda stjórnvalda og löggjafans að bregðast við. Mikilvægi þess að lágmarka líkur á því að til orkuskorts komi er einnig undirstrikað í stefnu stjórnvalda í orku-, efnahags- og byggðamálum.

Það er ljóst að eftirspurn eftir raforku hefur verið mikil á undanförnum árum og nýtt orkuframboð hefur ekki haldið í við þá auknu eftirspurn. Íslenska raforkukerfið er einangrað, sjálfstætt, og ekki tengt neinum öðrum löndum, sem þýðir auðvitað að raforkuframleiðslan takmarkast af stöðu orkuauðlinda á hverjum tíma. Með vísan til almannahagsmuna er nauðsynlegt að tryggja raforkuöryggi heimilanna og minni fyrirtækja og koma í veg fyrir að fyrirsjáanlegur markaðsbrestur, m.a. vegna óviðráðanlega aðstæðna af náttúrunnar völdum, valdi heimilum og minni fyrirtækjum skaða. Ég hygg að það sé hægt að fullyrða að það sé rík samstaða milli stjórnmála sem og atvinnulífs að vinna að auknu raforkuöryggi, hvort sem er fyrir heimili, samfélagslega mikilvægar stofnanir eða atvinnulífið í heild. Þetta er aftur í samræmi við orkustefnu til ársins 2050. Árangursríkasta leiðin að þessu markmiði er sú að styrkja og efla raforkukerfið til framtíðar, tryggja skilvirkan og gagnsæjan orkumarkað og auka framboð raforku.

Starfshópar sem fjallað hafa um afhendingaröryggi raforku hafa bent á nauðsyn þess að skýra hlutverk og ábyrgð aðila á raforkumarkaði, þ.e. stjórnvalda, flutningsfyrirtækisins, söluaðila og vinnslufyrirtækja. Það er ljóst að gildandi lög mæla ekki nægjanlega skýrt fyrir um ábyrgð og hlutverk stjórnvalda þegar kemur að fullnægjandi framboði raforku.

Fyrir atvinnuveganefnd liggur frumvarp frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um breytingu á raforkulögum. Þetta er mál nr. 348 á þskj. 355. Með því frumvarpi eru stigin skref í samræmi við tillögur starfshóps sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði 14. janúar 2022. Hlutverk starfshópsins var að fylgja eftir tillögum í skýrslu annars starfshóps frá ágúst 2020 um orkuöryggi á heildsölumarkaði fyrir raforku. Gert er ráð fyrir því að fleiri tillögur starfshópanna en það frumvarp sem nefndin er að vinna að og mun ekki ljúka fyrr en á nýju ári, verði útfærðar í framhaldi af framlagningu þess frumvarps.

Það er nauðsynlegt að undirstrika að frumvarp það sem hér liggur fyrir og er til afgreiðslu leysir ekki áskoranir í orkumálum, heldur er því ætlað að veita stjórnvöldum tímabundna heimild til að grípa til aðgerða til að tryggja heimilum samfélagslega mikilvægum innviðum og minni fyrirtækjum forgang að raforku. Mikilvægt er að það svigrúm verði nýtt til að gera nauðsynlegar lagabreytingar til að tryggja orkuöryggi landsmanna til lengri tíma.

Frú forseti. Ég segi bara frá eigin brjósti að ég ætla að undirstrika það að mikilvægt er að farið verði í þá vinnu og henni hraðað að tryggja orkuöryggi landsmanna til lengri tíma, jafnt þegar kemur að því að lagfæra lagarammann en líka þegar kemur að aukinni orkuöflun.

Í áliti sínu bendir atvinnuveganefnd á nauðsyn þess að í lögum verði mælt fyrir um úrræði sem grípa megi til vegna ójafnvægis milli framboðs og eftirspurnar á raforku. Hátt hlutfall heildarframboðsgetu er bundið í langtímasamningum við stórnotendur. Í skýrslu starfshóps um orkuöryggi frá 2020 er bent á að vegna þessa sé talsverður tæknilegur sveigjanleiki í kerfinu sem rétt sé að nýta til að tryggja jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar áður en leitað er annarra leiða sem eru kostnaðarsamari og/eða fela í sér meira inngrip á raforkumarkaði. Atvinnuveganefnd tekur undir þessar ábendingar. Í samráðsgátt stjórnvalda hefur jafnframt verið birt áformaskjal um lagasetningu um viðskiptavettvang raforku. Nefndin leggur áherslu á að vinnu við þá lagasetningu verði hraðað þannig að tryggt verði að lagaramminn verði skýr fyrir lok árs.

Í umsögnum um frumvarpið er réttilega bent á að inngrip í raforkumarkaðinn, sem frumvarpið mælir fyrir um, sé m.a. afleiðing þess að ekki sé virkur samkeppnismarkaður og að verðmyndun sé ógagnsæ og ófyrirsjáanleg. Ábendingar þessa efnis eru í samræmi við niðurstöðu starfshóps sem ég vitnaði til hér áðan og raunar fleiri aðila.

Nefndin undirstrikar að íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að tryggja öllum heimilisnotendum rétt á að fá afhenta raforku af ákveðnum gæðum á sanngjörnu verði sem er gagnsætt, auðveldlega samanburðarhæft og felur ekki í sér mismunun og er það í samræmi við þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist alþjóðlega.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpi því sem nefndin lagði fram hér í upphafi samkvæmt beiðni ráðherra. Þessum breytingum er ætlað að koma til móts við þau fjölmörgu og í rauninni mjög ólíku sjónarmið sem koma fram í umsögnum til nefndarinnar um málið.

Í fyrsta lagi leggur nefndin til breytingu á 1. efnismgr. frumvarpsins. Breytingunni er ætlað að afmarka skýrar þá notendur sem njóta eiga framboðsöryggis, svo að skilgreiningin verði ekki of víð.

Í þessu sambandi vil ég undirstrika, vegna þess að ég hef orðið var við ákveðinn misskilning, að þegar nefndin vitnar í nefndarálitið í tilskipun Evrópusambandsins, raforkutilskipunina, að nefndin hafi haft hliðsjón af henni, þá erum við ekki að leggja til að fylgt verði þeim stærðarmörkum sem þar koma fram. En við horfðum hins vegar auðvitað til þessarar tilskipunar í vinnu nefndarinnar að öðru leyti varðandi aðra þætti, þannig að það sé alveg skýrt. Við erum að tala um alla aðra en stórnotendur og þá aðila sem hafa samið sérstaklega um afgangsraforku og kaupa hana þá á sérstaklega hagstæðu og lægra verði en öðrum stendur til boða.

Eins og ég sagði hér áðan: Við erum ekki að fara að verja þau fyrirtæki sem hafa samið sérstaklega um afhendingu á skerðanlegri orku. Nefndin leggur til breytingu á málsgreininni sem ætlað að tryggja að vinnslufyrirtæki hafi tiltæka forgangsorku fyrir áðurnefnda aðila, heimili og fyrirtæki hér á Íslandi, og hún skuli vera í hlutfalli við heildarframleiðslu vinnslufyrirtækisins næstliðið ár. Með því er leitast við að tryggja að öll vinnslufyrirtæki leggi nokkuð af mörkum við að tryggja raforku til þeirra hópa sem frumvarpinu er ætlað að vernda.

Nefndin leggur til breytingu á 2. efnismgr. frumvarpsins þess efnis að ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála, að fenginni tillögu Orkustofnunar og Landsnets, verði heimilað að leggja fyrir seljendur forgangsraforku í heildsölu að veita forgang að kaupum á raforku til sölufyrirtækja sem eingöngu selja til notenda, annarra en stórnotenda, og kaupum á flutningstöpum. Í frumvarpinu er það hlutverk falið Orkustofnun, en nefndin telur að þessi heimild sé svo þýðingarmikil og að áhrif beitingarinnar, sem kemur vonandi aldrei til, séu slík að betur fari á því að ráðherra taki þá ákvörðun eftir tillögu annars vegar frá Orkustofnun og hins vegar Landsvirkjun. Þannig teljum við að ýtrustu varúðar verði gætt við nýtingu heimildarinnar.

Nefndin leggur einnig til breytingu á 3. efnismgr. frumvarpsins þess efnis að sölufyrirtæki skuldbindi sig til að hafa í forgangi endursölu raforku til heimila, fyrirtækja og flutningstapa. Sú breyting sem nefndin leggur til er til einföldunar og skýringar þess ákvæðis sem lagt var til í frumvarpinu sjálfu. Með breytingunni verða skyldur sölufyrirtækja til endursölu til endanotenda engum vafa undirorpnar. Þá er breytingunni jafnframt ætlað að koma til móts við þær breytingar sem nefndin leggur til í 2. mgr. og ég hef áður vikið að.

Nefndin leggur til veigamiklar breytingar á 4. efnismgr. frumvarpsins. Þannig leggur nefndin til að heimild 2. mgr. skuli aðeins beitt ef Orkustofnun og Landsnet hafa metið það svo að nauðsyn krefji og önnur vægari úrræði dugi ekki til, úrræðið er matskennt og þessum aðilum því falin töluverð ábyrgð. Nefndin ítrekar að úrræðinu eigi ekki að beita fyrr en ljóst er að önnur úrræði dugi ekki til. Fyrir nefndinni komu fram ýmis sjónarmið um virkni orkumarkaðar í landinu. Var það sjónarmið fjölmargra umsagnaraðila að með því að leyfa inngrip sem þetta gæti það haft alvarlegar afleiðingar á frjálsan orkumarkað, sem verið hefur í uppbyggingu frá árinu 2003. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og telur ljóst að sá neyðarhemill, sem lagður er til með frumvarpinu, sé þrautavaraúrræði sem eingöngu beri að grípa til ef öðrum vægari kostum er ekki hægt að koma við.

Þá telur nefndin að skerðingin eigi ekki að vara lengur en nauðsynlegt er og aldrei lengur en þrjá mánuði í senn í stað sex mánaða eins og upphaflega var lagt til. Í ljósi alvarleika inngripa, sem við vonum öll að komi ekki til, er nauðsynlegt að ráðherra skili atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd greinargerð með rökstuðningi fyrir inngripi innan fimm virkra daga frá beitingu heimildarinnar. Greinargerðina skal jafnframt birta opinberlega. Þetta er nýjung í frumvarpinu og breytingartillaga.

Að lokum leggur nefndin til að gildistími ákvæðisins verði styttur um ár, þ.e. að frumvarpið gildi til 1. janúar 2025. Nefndin hvetur ráðuneytið og þær stofnanir landsins sem koma að orkumálum til að huga vel að öðrum þeim þáttum sem geta tryggt orkuöryggi þjóðarinnar til lengri og skemmri tíma. Það er ein af grunnskyldum stjórnvalda og allra þeirra aðila sem vinna á orkumarkaðnum, hvort sem er með bættum flutningsleiðum, leiðum til að draga úr töpum á flutningi, nýjum grænum orkukostum sem og að liðka fyrir þeim orkukostum sem fulla umræðu hafa fengið en virðast hafa tafðist vegna tregðu í stjórnsýslunni. Ljóst er að eftirspurn eftir raforku mun síst minnka á komandi árum, ekki síst grænni orku, og því er brýnt fyrir atvinnulíf í landinu og heimilin og þjóðarbúið í heild að tryggja að spennandi verkefnum, t.d. á sviði nýsköpunar á Íslandi, verði ekki úthýst til annarra landa, frá grænni orku hér.

Frú forseti. Ég hef nú, held ég, gert grein fyrir áliti atvinnuveganefndar en núna rétt í lokin ætla ég að segja nokkur orð frá eigin brjósti. Ég hef notið þess hér á þingi að kljást við mörg mál, sum flókin og erfið þar sem miklir hagsmunir eru undir, ólík sjónarmið koma fram, en mér hefur alltaf einhvern veginn tekist að mestu að komast að niðurstöðu sem ég hef ekki bara sannfæringu fyrir heldur er ánægður með vegna þess að í öll skiptin bar ég gæfu til þess að hafa nokkuð góðar upplýsingar við höndina þegar ég var að taka ákvörðun.

Það olli mér nokkrum áhyggjum þegar ég var að vinna við þetta frumvarp hve ógegnsær íslenskur raforkumarkaður er, hve miklar brotalamir virðast vera í íslensku reglu- og lagaverki þegar kemur að íslenskum raforkumarkaði og hvernig ójafnræðið birtist mér í því samkeppnisumhverfi sem hér er. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir stjórnvöld, fyrir ráðherra en líka fyrir löggjafann auðvitað, að taka til og koma hér á eðlilegum og gagnsæjum raforkumarkaði með skynsamlegri löggjöf um viðskiptavettvang raforku, ryðja úr vegi þeim hindrunum stjórnsýslunnar sem eru og virðast vera fyrir grænum, skynsamlegum orkukostum þannig að hægt sé að mæta hér þeirri eftirspurn sem við sjáum handan við hornið og þeirri eftirspurn sem er. En fyrst og síðast verða menn auðvitað líka að klára það verkefni sem menn hófu með setningu raforkulaganna árið 2003. Þá var aflétt þeirri skyldu af Landsvirkjun að tryggja rafmagn til heimila eða almennra notenda, skulum við bara segja, heimila og fyrirtækja — við erum alltaf að tala annars vegar um stórnotendur og hins vegar um heimili og önnur fyrirtæki. Í þessi 20 ár höfum við ekki náð að átta okkur á því hvernig og með hvaða hætti við tryggjum öryggi þessara aðila. Við erum að reyna að gera það hér í þessu frumvarpi, sem er neyðarfrumvarp, sem eru neyðarlög sem við leggjum til að gildi þó aðeins í eitt ár vegna þess að við teljum að það sé það svigrúm sem nauðsynlegt er til að ná utan um og byggja upp þann lagaramma sem við vitum að þarf. Ég vona að sú von rætist. Ábyrgðin er okkar. Ábyrgðin er stjórnvalda og ábyrgðin er líka á herðum allra hagaðila, þeirra sem koma að orkuvinnslu, dreifingu orku og sölu. Þetta er samstarfsverkefni. Við vitum hvert verkefnið er. Við vitum hverjar skyldur okkar eru. Þær eru fyrst og síðast við íslensk heimili og fyrirtæki og framtíðina þannig að hægt sé að byggja hér upp glæsileg nýsköpunarfyrirtæki með grænni orku.