154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

raforkulög.

541. mál
[15:41]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir sína ágætu framsögu. Lokaorðin voru sérstaklega góð. Ég tek undir þau. (Gripið fram í.) Já, það er alltaf best. Þetta er stórt og þungt mál sem hefur mætt á nefndinni undanfarnar vikur. Áður en ég vík að efnisatriðum þess og ákveðnum athugasemdum, sem ég vil gera, þá langar mig aðeins að tala um orkumál almennt. Á undanförnum vikum hefur verið rætt talsvert í þessum sal um þá kyrrstöðu sem hefur ríkt í orkuöflun síðustu ár á vakt Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna. Þessi kyrrstaða bitnar á verðmætasköpun, hún bitnar á atvinnuuppbyggingu á Íslandi og hún grefur undan orkuskiptum til lengri tíma og grefur undan þeim aðgerðum sem verður einmitt að ráðast í til að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum. Við eigum lög um rammaáætlun. Þetta eru góð lög og við í Samfylkingunni erum stolt af því að hafa haft forgöngu um að þessi lög voru sett á sínum tíma. Með þeim var umræðan um orkunýtingu og vernd hífð upp úr skotgröfunum og með þeim var mörkuð fagleg umgjörð um þessar risastóru og oft óþægilegu ákvarðanir sem þarf að taka.

Í lögum um rammaáætlun er gert ráð fyrir að slík áætlun komi til Alþingis á fjögurra ára fresti og að mörkuð sé stefna um það hvað á að vernda og hvar á að virkja. Þetta ákvæði í lögunum er auðvitað algjörlega þýðingarlaust ef það líða til að mynda sjö ár án þess að flokkarnir sem stjórna landinu komi sér saman um rammaáætlun. Þetta er engu að síður það sem gerðist núna á tímabilinu 2015–2022. Afleiðingin af slíku afstöðuleysi löggjafans er þessi kyrrstaða sem ég nefndi hérna áðan, kyrrstaða þegar kemur að undirbúningi og framkvæmdum. Við megum ekkert við því þegar leyfisveitinga- og skipulagsferlið er ekki skilvirkara en svo að það geti tekið 10, 12, 13 ár að koma virkjun í gagnið. Orkustofnun hefur bent á að leyfisveitingaferlið vegna nýrra virkjana mætti vera sjálfvirkara. Það ætti að vera hægt að einfalda umsækjendum gagnaskil og samþætta þau til stjórnvalda vegna einnar og sömu framkvæmdarinnar. Landsvirkjun hefur að sama skapi bent á að þetta ætti að vera hægt að gera án þess að slá af kröfum um samráð við almenning og um mat á umhverfisáhrifum. Ég vil hvetja sitjandi ríkisstjórn til dáða í þessum efnum og ég hygg að það sé mjög drjúgur þingmeirihluti fyrir því í þessum sal að rjúfa þessa kyrrstöðu sem við höfum rætt um.

Umgengnin við rammaáætlun er eitt og leyfisveitinga- og skipulagsferlið er annað, en svo er auðvitað þriðja atriðið sem er það að ríkisstjórnum síðustu ára hefur ekki tekist að skapa sátt um það hvernig tekjurnar af orkuframleiðslu og orkumannvirkjum eigi að skiptast. Við sjáum þetta t.d. með Búrfellslund, sem er virkjunarkostur sem við í Samfylkingunni studdum rétt eins og t.d. Hvammsvirkjun á sínum tíma. Hér erum við að tala um framkvæmdir sem hefur verið frestað að kröfu Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna þess að sveitarstjórnin bendir réttilega á það að tekjurnar af þessum mannvirkjum sem Landsvirkjun hyggst koma upp skila sér ekki nægilega til nærsamfélagsins. Það er ákveðin ósanngirni fólgin í skatt- og lagaumhverfinu og ég held að þetta sé eitthvað sem þurfi að bæta úr. Ég ætla að nota tækifærið hér og lýsa því yfir að mér líst ágætlega á margt af því sem kemur fram í tillögum starfshóps orkumálaráðherra þegar kemur að uppbyggingu og nýtingu vindorku, og kannski ekki alveg sjálfgefið að vindurinn eigi endilega heima í rammanum.

Kyrrstaðan í orkumálum er eitt og hún bitnar á hagvexti, grefur undan orkuskiptum og grænni og loftslagsvænni verðmætasköpun á Íslandi. En svo er það frumvarpið sem hérna til umræðu. Þetta frumvarp tekur á ákveðnum vanda á orkumarkaði, því hvernig sölufyrirtæki hafa getað keypt orku af Landsvirkjun í heildsölu og selt svo áfram til stórnotenda í meira mæli en er sjálfbært miðað við orkuframboð í landinu og þá í raun skuldbundið sig ótæpilega gagnvart stórnotendum án þess að það sé raunveruleg trygging fyrir því að heimili og smærri fyrirtæki fái þá orku sem þau þurfa. Þetta er vandinn hérna og þótt ég sé sammála a.m.k. einhverjum þeirra sem kalla eftir frekari orkuöflun í landinu, að sjálfsögðu innan skynsamlegra marka og án þess að ganga of freklega á þau almannagæði sem felast í óspjallaðri náttúru, þá vil ég samt segja að þessi vandi sem þetta tiltekna frumvarp tekur á mun ekki leysast við það að bæta við einni eða tveimur virkjunum. Jafnvel þótt það yrði gert þá mun þetta ójafnvægi á orkumarkaði sem stafar af þessu sem ég lýsti rétt í þessu áfram vera til staðar. Það eru allar líkur á því að eftir því sem samfélagið stækkar og verður flóknara og umsvifin aukast eftir því sem orkuskiptunum vindur fram, verði eftirspurnin áfram kerfisbundið meiri en framboðið og orkan sem Landsvirkjun kemur með inn á heildsölumarkaði verði þannig áfram seld til stórnotenda að einhverju leyti umfram það sem samrýmist orkuöryggi heimila og smærri fyrirtækja.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa þetta á hreinu og skilja að einhverju leyti á milli umræðunnar um kyrrstöðu í orkuöflun almennt og þess sem við erum að gera með þessu frumvarpi því að þegar raforkulögin voru sett fyrir 20 árum síðan var skylda Landsvirkjunar til að sjá almennum notendum fyrir fullnægjandi framboði raforku aflögð og í núgildandi lögum er hvergi mælt fyrir um ábyrgð eða skyldu orkufyrirtækja til að afla orku fyrir almenna markaðinn. Hér skulum við hafa það algerlega hugfast hvað aðstæður okkar eru sérstakrar. Við erum með lokað raforkukerfi. Við getum ekki flutt inn raforku frá útlöndum eins og tíðkast t.d. í nágrannalöndunum, í Evrópu, á meginlandinu t.d. Við erum ekki með varaorkukosti eins og gasorkuver. Kerfið er fulllestað, fullselt. Þetta eru aðstæðurnar sem við búum við og ég held að enginn hér í þessum sal geri ágreining um það að raforka er nauðsynjavara. Truflun á afhendingu raforku til heimila og fyrirtækja er óboðleg í nútímasamfélagi og þeirri stöðu ætlum við, löggjafinn, ekki að leyfa að koma upp, að það þurfi einhvern veginn að skerða almenna notendur, heimili og smærri fyrirtæki, eða að orkuverð til þeirra rjúki upp úr öllu valdi. Það kemur ekki til greina og þess vegna er þetta frumvarp flutt. Einhverra hluta vegna flutti hæstv. orkumálaráðherra það ekki sjálfur heldur óskaði eftir því að atvinnuveganefnd tæki það að sér og fyrir vikið fylgdi greinargerð frumvarpsins kannski ekki jafn ítarlegt áhrifamat og rýni út frá t.d. stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum og venjan er þegar þingmál koma úr ráðuneyti, en látum það liggja á milli hluta hér. Með frumvarpinu eins og það var lagt fram í upphafi er mælt fyrir um að Landsvirkjun skuli tryggja framboð forgangsorku á heildsölumarkaði til notenda annarra en stórnotenda sem nemur því magni sem vinnslufyrirtækið, Landsvirkjun, seldi á heildsölumarkaði árin á undan. Svo er Orkustofnun veitt heimild til að leggja fyrir seljendur forgangsraforku í heildsölu að veita forgang að kaupum á raforku til sölufyrirtækja sem eingöngu selja til notenda, annarra en stórnotenda, og kaupum á flutningstöpum.

Nú hefur atvinnuveganefnd lagt til verulegar breytingar á þessu frumvarpi og sem áheyrnarfulltrúi í nefndinni hef ég verulegar áhyggjur af þeim breytingum sem nefndin er að leggja til og ég taldi mér ekki fært að styðja þær, lýsti mig ekki samþykkan nefndaráliti og breytingartillögum nefndarinnar sem var útbýtt í gærkvöldi. Ég ætla að fara yfir það hvers vegna þetta er. Ég ætla að fara yfir breytingartillögur nefndarinnar, lið fyrir lið, og gera grein fyrir athugasemdum mínum jafnóðum.

Í fyrsta lagi leggur atvinnuveganefnd til að vinnslufyrirtækjum sé gert að tryggja forgangsraforku til heimila og fyrirtækja, annarra en stórnotenda og þeirra sem hafa samið sérstaklega um skerðanlega notkun til þeirra auk flutningstapa í hlutfalli af heildarframleiðslu sinni næstliðið ár af heildarframleiðslunni, þ.e. heildarframleiðslu í landinu öllu. Verið er að miða þessa framboðstryggingu eða framboðsskyldu við hlutfall af heildarframleiðslu í landinu. Þetta er grundvallarbreyting frá því sem áður var lagt til í frumvarpinu. Hér er verið að leggja miklu þyngri byrðar á Landsvirkjun heldur en stóð til í upphafi, enda er hlutdeild Landsvirkjunar í heildarframleiðslu u.þ.b. 72% þannig að Landsvirkjun mun þurfa að geta tryggt orku fyrir 72% af almenna markaðnum, sem er langt umfram það sem fyrirtækið hefur verið að selja inn á almenna markaðinn. Það er eitthvað undir 50%, mig minnir að það séu 47%.

Þá vaknar spurningin: Hvaðan á þessi orka eiginlega að koma? Við erum að tala um meira en heila Hvammsvirkjun, virðulegi forseti, sem Landsvirkjun á allt í einu að hafa upp á að hlaupa til almennra notenda. Hvaðan á orkan að koma? Hvernig á þetta ákvæði að vera framkvæmanlegt? Landsvirkjun hefur ekki heimildir til að rifta samningum við stórnotendur. Það eru engir samningar að losna á næstunni. Löggjafinn getur ekki skyldað Landsvirkjun til að hafa eignarréttindi að engu og standa ekki við gerða samninga. Þetta er alveg á hreinu. Lögin eru að þessu leytinu til algerlega óframkvæmanleg, eða ég hef a.m.k. ekki heyrt hvernig í ósköpunum framkvæmdin á að ganga upp hvað Landsvirkjun áhrærir. Framboðstryggingin virkar ekki. Ég spái því að ef frumvarpið eins og það lítur út eftir umfjöllun atvinnuveganefndar verður svona að lögum og ef til þess kemur í byrjun næsta árs að það þurfi að grípa í þennan neyðarhemil sem er mælt fyrir um, muni einfaldlega þurfa að kalla Alþingi saman til að leiðrétta þessi mistök sem ég tel og óttast að atvinnuveganefnd sé að gera.

En ímyndum okkur, virðulegi forseti, að lögin væru framkvæmanleg, að Landsvirkjun gæti raunverulega uppfyllt þessa framboðsskyldu. Þá fæli breytingin í sér alveg stórkostlega röskun á starfsemi Landsvirkjunar. Þá þyrfti orkufyrirtækið okkar, Landsvirkjun, að eiga heila Hvammsvirkjun upp á að hlaupa og gæti ekki selt þessa orku stórnotendum. Þessi orka myndi þá væntanlega fara í einhvers konar skerðanlega samninga, t.d. Bitcoin. Þá erum við að ýta undir rafmyntagröft, er það það sem vakir fyrir fólki? Nei, ég trúi því ekki. Ég held að þetta séu mistök. Þarna væri, ef ákvæðið væri raunverulega framkvæmanlegt gagnvart Landsvirkjun, verið að skapa alveg gríðarlegt óhagræði og valda orkufyrirtækinu okkar og starfsemi þess skakkaföllum. Hvað með hin orkufyrirtækin? Hvað með stóru sölufyrirtækin? Með þessari útfærslu meiri hlutans eða nefndarinnar allrar — fulltrúar allra flokka nema Samfylkingar eru á þessu máli — þá verður ekkert því til fyrirstöðu, virðulegur forseti, að þessi fyrirtæki dragi bara áfram úr sölu til almennra notenda en selji jafnvel enn meira til stórnotenda en þau gera í dag. Þessi hlutföll sem er verið að lögfesta gera ekkert til að koma í veg fyrir það. Því er í raun ekkert því til fyrirstöðu að vandinn sem þessu frumvarpi er ætlað að taka á vindi bara enn frekar upp á sig. Ég er því mjög hissa á því að atvinnuveganefnd skuli fara þessa leið og að það skuli vera þessi breiða samstaða í nefndinni um að fara þessa leið. Það kemur mér mjög á óvart og ég hvet nefndarmenn og skora eindregið á þá að leggja til gagngerar breytingar á málinu áður en það kemur til 3. umræðu. Við verðum að vanda okkur þegar svona stór mál eru í húfi.

Í breytingartillögum meiri hlutans var líka mælt fyrir um að stuðst yrði við spá flutningsfyrirtækisins, þ.e. Landsnets, þegar magn forgangsraforku og flutningstapa er leiðrétt sem hefði auðvitað skotið skökku við af því að Landsnet er sjálft hagaðili að þessu leyti. Fyrirtækið sjálft er að kaupa flutningstöp á markaði og hefur líka ekki það lögbundna hlutverk að gera raforkuspá. Mér skilst að nefndin ætli að bregðast við þessu þó að það liggi ekki fyrir í þessu tiltekna nefndaráliti að það sé samstaða um að leiðrétta þetta og miða bara áfram við orkuspá Orkustofnunar, sem er vel og sem ég styð. Ég lýsti þeirri skoðun minni í forsíðuviðtali Morgunblaðsins fyrr í vikunni að það færi betur á því að ráðherra færi með endanlegt ákvörðunarvald þegar kemur að þeirri ákvörðun sem Orkustofnun er falin samkvæmt frumvarpinu í upphaflegri mynd og hann geri það þá að tillögu Orkustofnunar. Meiri hlutinn er sama sinnis að þessu leyti, sem er vel, en bætir reyndar Landsneti við í púllíuna og segir:

„Í stað orðanna „Orkustofnun er heimilt“ […] komi: Ráðherra er heimilt að fenginni tillögu Orkustofnunar og Landsnets.“

Hér finnst mér svolítið skautað fram hjá því að heimildir Landsnets til að sækja nákvæm gögn um þróun orkumála eru allt aðrar en heimildir Orkustofnunar og Orkustofnun hefur ekki heimildir til að deila sínum gögnum og upplýsingum um stöðu mála með Landsneti, enda Landsnet sjálft þátttakandi í t.d. því að kaupa flutningstöp o.s.frv. Hér sýnist mér strax, með þessari útfærslu, verið að búa til ákveðið flækjustig sem ég held að nefndin ætti að reyna að komast hjá. Ef það er endilega vilji til þess að Landsnet komi að þessu með einhverjum hætti þá væri kannski skynsamlegra að orða ákvæðið með eftirfarandi hætti:

Ráðherra er heimilt, að fenginni tillögu Orkustofnunar sem skal leita umsagnar lykilaðila, svo sem Landsnets, að leggja fyrir seljendur forgangsraforku í heildsölu að veita forgang að … o.s.frv.

Hér vil ég líka benda meiri hlutanum, sem hefur haft áhyggjur af því að verið sé að taka íþyngjandi ákvarðanir gagnvart fyrirtækjunum, á tillögu sem Orkustofnun sendi nefndinni um að áður en þessari heimild sé beitt skuli gera sölufyrirtækjum raforku viðvart um stöðu almenna markaðarins og hvetja til viðleitni til að bregðast við í raforkuviðskiptum sínum. Með þessu hefði Orkustofnun mjög skýra lagaheimild til að láta reyna á það fyrir fram gagnvart sölufyrirtækjum hvort það sé hægt að leysa úr þeim vanda sem frumvarpinu er ætlað að bregðast við.

Atvinnuveganefnd leggur líka til að heimild skv. 2. mgr. skuli aðeins beitt ef ljóst er að vægari úrræði duga ekki til, svo sem kaup á orku frá stórnotendum. En hafa stórnotendur heimildir samkvæmt gildandi samningum til slíkrar endursölu? Hve margir stórnotendur eru þetta sem er raunhæft að ætlast til þess að geti selt sína orku áfram og í hvers konar stöðu eru þá neytendur settir ef gerð er krafa um að orkan sé sótt til stórnotenda á því verði sem stórnotendur ákveða væntanlega sjálfir? Þótt þetta sé eflaust skynsamlega hugsað þá held ég að það þurfi að skapa skýrari ramma um svona endursölu áður en við förum að lögfesta það sérstaklega í þessu tiltekna frumvarpi að kaup á orku frá stórnotendum sé úrræði sem skuli reynt áður en gripið er til heimildarinnar í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili. Þær breytingartillögur sem nefndin hefur lagt til á þessu máli eru þannig úr garði gerðar að Samfylkingin mun að óbreyttu ekki geta stutt þetta mál. Ég skora á atvinnuveganefnd að leiðrétta þessi mistök.