154. löggjafarþing — 53. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[18:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þetta er afleitt mál og það vissu flestir, meira að segja hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar ekki alls fyrir löngu þegar þeir komu hver á eftir öðrum í þennan ræðustól og í viðtöl til að útskýra að við myndum aldrei samþykkja þetta. Svo var stundum bætt við: alla vega ekki óbreytt. Nema hvað, svo þegar Evrópumannahátíðin mikla var haldin hér í bæ þá mátti ekki skemma stemninguna og ríkisstjórnin gaf eftir, lúffaði en féllst á elstu brelluna í bók Evrópusambandsins, að fá smáfrest, nokkur ár. Og hvað gerist eftir þann tíma? Jú, allur hryllingurinn tekur við. Við getum rétt ímyndað okkur, þegar ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar verður mynduð eftir næstu kosningar, hvort það verði ekki auðvelt að semja um sjávarútvegskaflann í samningum við Evrópusambandið. (Forseti hringir.) Það verður bara þriggja ára frestur. (Gripið fram í.)Ég segi nei.