154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

aðbúnaður og þjónusta við fólk með fötlun vegna ástandsins í Grindavík.

[17:04]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góð viðbrögð við þessari fyrirspurn minni og að hann ætli að grennslast fyrir um þetta. Svo að ég sé alveg nákvæm þá er verið að vísa í þetta leigutorg og að þar séu engar eignir sem gera ráð fyrir hjólastólaaðgengi. En úr því að hæstv. félagsmálaráðherra, sem er vel, vísaði í að hann hefði tryggt að fötluðu fólki hefði verið komið fyrir þá tel ég ótrúlega mikilvægt að minna á mikilvægi þess að fatlað fólk hafi sjálfsákvörðunarrétt um hvar það býr, að það geti verið í nánd við sína nánustu. Eins og við komum inn á og eins og ég kom inn á þegar ég var að ræða um stöðuna í Grindavík er svo ótrúlega mikilvægt að hafa samfélagið í kringum sig, þessar tengingar og þetta samstarf. Ég held að sér í lagi sé það mikilvægt fyrir fólk sem hefur einhverjar stuðningsþarfir að hafa aðgengi að sínum nánustu. Núna þegar fólk er komið vítt og breitt þarf að tryggja það til framtíðar að fólk hafi val um búsetu og form á búsetu. Til þess þarf aðeins meira en að sveitarfélögin taki einungis ábyrgð á því. Það þarf smáframtíðarsýn í því og einhvers konar sýn um hvernig er hægt að tryggja það gagnvart þessum hópi.