154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Umhverfis- og orkustofnun.

585. mál
[15:37]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það mál sem hv. þingmaður vísaði til og hefur tekið langan tíma og allan tíma nefndarinnar, það var hins vegar kynnt, ef ég man rétt, í október þannig að hv. þingmaður var algerlega meðvitaður um stöðu þess máls. Hv. þingmaður veit líka af hverju það kom seint inn. Það voru áherslur held ég allra að það væri mikilvægt að gæta hagsmuna Íslendinga og í stað þess að setja þetta beint inn þá unnu menn í þeim málum. Þetta er allt sem hv. þingmaður þekkir. Hv. þingmaður getur verið mjög argur út í þann sem hér stendur en það breytir því ekki að það var ekkert sem kom frá stjórnarandstöðunni sem var til að hjálpa í þessum málum. Þá er ég að vísa í sameiningarmálin. Það liggur alveg fyrir. Ef það hefði verið þá hefði þetta klárast, (Gripið fram í.) það er bara staðreynd og það veit ég og það vita allir hv. þingmenn.

Ég veit ekki, ég ætla ekki að taka þeirri áskorun að byrja að tala við sjálfan mig. Þeir sem tala mikið við sjálfa sig, það fer eiginlega ekkert vel á því. Í minni æsku þótti það ekki gott að fólk væri mikið að tala við sjálft sig. Aðalatriði málsins er bara þetta: Við breytum því ekki sem á undan er gengið. Núna eru þessi mál að koma hingað inn. Þetta mál er komið inn og fleiri koma fljótlega. Það er afskaplega mikilvægt að hv. þingmenn vinni vel í þeim málum og setji það í forgang. Það eru mörg dæmi þess, virðulegur forseti, að hv. þingnefndir og hv. þingmenn hafi lagt mikið á sig til að koma góðum málum í gegn.