154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

niðurfelling persónuafsláttar lífeyris- og eftirlaunaþega sem búsettir eru erlendis.

[10:49]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Rétt fyrir síðustu jól sló ríkisstjórn Íslands, nánar tiltekið fjármálaráðuneytið, eigið met í lágkúru og fjárhagslegu ofbeldi gegn þeim sem minnst mega sín. Kirfilega falin í gistináttabandorminum kom fram ný birtingarmynd af grimmilegri skerðingarstefnu stjórnvalda. Í bandorminum var ákvæði um að fella niður persónuafslátt ellilífeyrisþega og öryrkja sem búa erlendis, fólks sem hefur gefist upp á því að hokra við sárafátæktarmörk hér á landi og haldið út í leit að betra lífi. Á einu bretti átti að svipta þau 65.000 kr. á mánuði, persónuafslætti, sem hefði í mörgum tilfellum verið nóg til að fólk gæti ekki staðið undir leigu eða fæði. Þetta átti að gera fólki sem er þegar svo bágstatt að hver einasta króna skiptir máli, með ekki nema fjögurra daga fyrirvara. Sem betur fer benti Flokkur fólksins á þetta og þá samþykkti Alþingi að fresta gildistökunni um ár.

Þetta fjárhagslega ofbeldi sem þarna er verið að lauma inn í bandorminn í skjóli myrkurs til að klekkja á þessu veika, aldraða fólki er 65.000 kr. Ég vil því spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Er hún sammála mér um að það verði að hætta við þessa grimmilegu aðför að eldri borgurum og öryrkjum eða er þetta hluti af stefnu Sjálfstæðisflokksins í málefnum aldraðra og öryrkja? Einnig: Hvernig var þessi ákvörðun tekin? Hvers vegna í ósköpunum var þetta ekki kynnt fyrir fólki heldur laumað inn í skjóli nætur? Síðan hljótum við líka að spyrja okkur að því hvernig í ósköpunum stendur á því að það átti að halda þessu kirfilega földu og gera þetta um áramótin þó að það væri búið að fresta því. Það tók Tryggingastofnun tvo daga að endurgreiða þetta þegar Skatturinn krafðist þess að þeir myndu brjóta lög.