154. löggjafarþing — 61. fundur,  31. jan. 2024.

Störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég átti í gær orðastað við forsætisráðherra um þá staðreynd að ég skynja stöðugt meira óöryggi og ákveðna óvissu í hjörtum okkar Íslendinga. Í gær einblíndi ég á manngerða óvissu og óttapólitík en í dag langar mig að tala um þá óvissuþætti sem við ráðum illa við, óöryggi sem fylgir því að búa í harðbýlu landi þar sem náttúran ræður för. Eldgosahrinan á Reykjanesinu hefur sett mikilvægi þess að vera með langtímaplön og áætlanir um varnir á dagskrá. Ég hef sent fyrirspurn um sviðsmynd og áhættumat fyrir Hafnarfjörð, Voga og Hveragerði til forsætisráðherra og í raun þurfum við þetta áhættumat fyrir allar Reykjanesskagann. Á ferðum mínum um landið ræðir fólk einmitt öryggi, innviði, þjónustu. Fyrir austan höfðu íbúar áhyggjur af því að það var ekki búið að tryggja öryggi íbúa á Seyðisfirði og Norðfirði. Flateyringar bíða eftir að snjóflóðavarnargarðarnir þar verði viðunandi eftir skellinn 2020 og fara inn í enn einn veturinn í óvissu um öryggi sitt. Við getum síðan nefnt Siglufjörð, Patreksfjörð, Eskifjörð og fleiri samfélög sem þekkja það að búa við óvissu og ógn skriðufalla og snjóflóða. Í vikunni féll einmitt eitt snjóflóðið í Súðavíkurhlíð og veginum lokað. Þar þurfum við að setja Súðavíkurgöng strax á dagskrá. Það var mikil mildi að ekki fór verr en við vitum vel að þetta var ekki í fyrsta og ekki síðasta skipti sem flóð fellur á þessu svæði.

Viðreisn leggur áherslu á að tekið sé á innviða- og öryggismálum heildstætt. Tilfinning fólks hefur verið að ákveðin svæði fái athygli í skamman tíma í senn og svo tekur bara næsti viðburður við. Ríkisstjórnir verða að geta haft augun á mörgum boltum í einu og fólkið okkar um allt land á ekki að þurfa að lifa við stöðuga óvissu um öryggi sitt. Hér þurfum framtíðarsýn, stefnufestu, stjórnfestu og forgangsröðun fjármuna.