154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.

[10:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Bara til að halda því til haga þá hefur samneysla, sem er þá kostnaður við reksturinn á mann, ekki verið að vaxa, svo það sé sagt, því hér er talað eins og svo hafi verið. Það breytir ekki þeirri sýn minni að í ríkiskerfinu sé of mikil sóun og á henni þurfi að taka, það þurfi að taka til þegar kemur að yfirbyggingu í kerfinu sem mun ekki leiða til skertrar þjónustu við fólk. Við sjáum auðvitað núna að verðbólgan er að fara niður og það hlýtur að vera gleðiefni og losar um víða. Það er hægt að fara í frekari sölu eigna og hætta verkefnum. Fagráðherrar verða auðvitað líka að hafa frumkvæði í því, ég stýri því ekki öllu saman. Og auðvitað þurfum við líka að hugsa um hvers virði langtímasamningar eru, ábyrgir langtímasamningar, ef það þýðir sem blasir við að ríkið þurfi með einhverjum hætti að koma að því. Við hljótum öll að vera sammála um að gera það a.m.k., en ekki segja að við ætlum ekki að gera neitt (Forseti hringir.) og taka á því að hér verði ekki náð saman. Það þarf að vera gert með ábyrgum hætti. En af því að hv. þingmaður sagði mig fara með rangt mál (Forseti hringir.) um að hér hafi verið útgjaldatillögur þá nefni ég bara eitt dæmi og það var sálfræðiútgjaldatillaga sem hér hefur komið fram.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir enn á takmarkaðan ræðutíma, bæði í fyrri og síðari ræðu; tvær mínútur í fyrri ræðu og ein mínúta í síðari ræðu.)