154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2023.

656. mál
[15:01]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka framsögumanni og formanni Íslandsdeildarinnar fyrir góða skýrslu. Eins og formaðurinn benti á var ég hluti af þessari þingmannanefnd þar til nú í haust. Mig langaði aðeins að fjalla um mikilvægi þess að hafa svona þingmannanefnd. Það er því miður þannig að það er oft verið að horfa til þess þegar kemur að einhverri aðhaldskröfu til þingsins að það hljóti nú að vera hægt að skera niður allar þessar utanlandsferðir þingmanna því að þetta sé bara einhver eyðsla. En sannleikurinn er sá að nefnd eins og þessi er ótrúlega mikilvæg í hagsmunagæslu Íslands og snýr í þessu tilfelli að Evrópusambandinu. Það er nefnilega þannig að í gegnum þessa nefnd fáum við bein tengsl við þingmenn og aðra frá Evrópusambandinu og náum oft að koma málum á framfæri á miklu persónulegri máta heldur en kannski gerist í gegnum embættismannakerfið. Í því sambandi er vert að nefna að það hefur verið mikið rætt hér t.d. um losunarheimildir fyrir flug, svokallað ETS-kerfi. Þar hefði mátt nýta þessa nefnd aðeins betur og fyrr í að vera í þessari hagsmunagæslu. Við höfum samt sem áður tvö dæmi um þar sem við höfum komið að málum þegar þau eru enn á undirbúningsstigum innan Evrópusambandsins en þau hafa verið rædd á þessum fundum og við höfum getað haft eitthvað um það að segja hvaða áhrif þessi löggjöf sem Evrópusambandið er að fara að setja eða er að fara að búa til, hefur á Ísland.

Það er einmitt í fylgiskjali 2 með þessari skýrslu fjallað um löggjöf sem hefur það að markmiði að tryggja virkni innri markaðarins þegar neyðarástand steðjar að. Þessi löggjöf kemur eftir heimsfaraldurinn þar sem þeir vilja samræma betur viðbrögð alls innri markaðarins í því hvernig tekist er á við krísur. Þetta heitir á ensku, með leyfi forseta, Single Market Emergency Instrument í dag. Nafninu var breytt, það var fyrst Mechanism en var breytt í Instrument þegar það fór lengra inn í kerfið. Við í utanríkismálanefnd vorum einmitt að fá upplýsingar um það að þessi hagsmunagæsla hefði hjálpað til vegna þess að umræðurnar um þetta mál milli fulltrúa ráðuneytanna í Brussel og Evrópuþingsins væru bara ganga mjög vel.

Annað dæmi um þetta er mál sem hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kynnti fyrir nokkrum vikum síðan. Það er verkefni innan Evrópusambandsins um örugg fjarskipti sem gengur m.a. út á það að það sé hægt að tryggja fjarskipti í gegnum gervihnetti á öruggan máta ef t.d. netárásir eru gerðar eða fjarskiptakaplar eru teknir í sundur. Um þetta mál var fjallað á fundi, ef ég man rétt, haustið … (Gripið fram í: Í mars.) — Já, í mars, fundinum í mars. Þar þrýstum við einmitt á að það væri mikilvægt að Ísland og EFTA-ríkin, sem eru kannski með byggð og annað á mjög norrænum svæðum þar sem erfitt er að leggja ljósleiðara endalaust úti um allt, hefðu aðgang að þessu verkefni. Og viti menn, samningaviðræður eru í gangi milli íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins um að við fáum að taka þátt í þessu. Þannig að það að við getum verið í þessari hagsmunagæslu, getum komið með okkar sýn og skýrt út, persóna við persónu, fyrir þingmönnunum sem eru að fjalla um þessi mál, sem eru að leiða vinnuna innan Evrópuþingsins — að þegar þeir átta sig á því eftir að hafa talað við okkur, kollega sína, þá er miklu auðveldara fyrir embættismennirnir að fylgja málum eftir. Þess vegna eru þessir fundir mjög mikilvægir. Það er einmitt farið í gegnum öll þau mismunandi efni sem hafa verið rædd á þessum fundum. Þetta er hagsmunagæsla sem virkilega skilar sér. Ég vil meina að þeir fjármunir sem fara í það að senda okkur þarna út nokkrum sinnum á ári skili sér hundraðfalt ef ekki þúsundfalt til baka fyrir íslenska ríkið. Þetta er nefnilega fjárfesting í því að byggja upp þessi sambönd, byggja upp það að við getum haft áhrif á þá löggjöf sem síðan nokkrum árum síðar kemur hingað inn.

Nú er t.d. mikið verið að ræða innan Evrópusambandsins nýja löggjöf um gervigreind, það sem þeir kalla, með leyfi forseta, AI Act, Artificial Intelligence Act. Þar erum við að að reyna að hafa áhrif, þar erum við að reyna að koma okkar sjónarmiðum inn í umræðuna, sjónarmiðum lands sem er með þetta sérstæða tungumál. Það þarf að passa að öll tungumál og annað séu að koma inn í þessa tækni. Við þurfum líka að passa upp á hluti eins og persónuvernd og annað, að ekki sé gengið fram yfir það sem við teljum að sé ásættanlegt.

Það hefur verið flutt frumvarp um gervigreind. Við urðum jú öll dálítið hissa þegar við sáum Hemma Gunn í áramótaskaupinu. Hvað hefði gerst ef þetta hefði verið hæstv. núverandi utanríkisráðherra að tala um það hvernig hann ætlaði að selja þetta og hitt til pabba síns? Við hefðum orðið dálítið hissa hérna í þinginu að sjá allt í einu þingmann eða hæstv. ráðherra vera að tjá sig um eitthvað og svo væru þetta ekkert þeir heldur gervigreind. Þannig að þetta eru hlutir sem við þurfum að vera að passa upp á, að hagsmunagæslan sé góð. Þess vegna er svo mikilvægt að það gerist milli þingmanna Alþingis og þingmanna á Evrópuþinginu. Og það gerist nákvæmlega á þessum fundum. Þess vegna er þetta svo mikilvæg fjárfesting fyrir okkur. Ég sakna svo sannarlega þess góða hóps sem vinnur í þessari nefnd en ég veit að kollegi minn sem kom í staðinn er líka að vinna vel með ykkur. En takk fyrir gott samstarf.