154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

ÖSE-þingið 2023.

632. mál
[16:01]
Horfa

Frsm. ÍÖSE (Dagbjört Hákonardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að stikla á stóru í skýrslu Íslandsdeildar þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE-þingsins, fyrir árið 2023. Ég tek hér til máls sem varaformaður Íslandsdeildar ÖSE-þingsins en Birgir Þórarinsson tók við formennsku í upphafi árs af Bryndísi Haraldsdóttur og tók hún þá sæti varamanns í Íslandsdeild. Helga Vala Helgadóttir gegndi stöðu varaformanns allt þar til hún lét af þingmennsku í september síðastliðnum og tók Jóhann Páll Jóhannsson sæti hennar og var hann jafnframt kosinn varaformaður á fundi Íslandsdeildar í nóvember. Þess ber þó að geta að í upphafi þessa árs, 2024, átti undirrituð vistaskipti við Jóhann Pál og gegnir nú formennsku og þar með varaformennsku í Íslandsdeildinni. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir tók sæti Ágústs Bjarna Garðarsson við upphaf árs og gerðist hann varamaður í Íslandsdeild. Að auki skiptu Logi Einarsson og undirrituð með sér sæti varamanns í Íslandsdeild á liðnu ári.

Á venjubundnu ári kemur ÖSE-þingið saman til fundar þrisvar; vetrarfundur er haldinn í febrúar, ársfundur í júlí og haustfundur í október eða nóvember. Á vettvangi ÖSE-þingsins árið 2023 var árásarstríð Rússlands í Úkraínu enn í brennidepli sem og áhrif þess á starfsemi ÖSE og ÖSE-þingsins. Á vetrarfundinum í Vín í febrúar var ár liðið frá innrás Rússlands í Úkraínu og einkenndist fundurinn af spennu og deilum vegna þátttöku sendinefndar rússneskra þingmanna. Var það í fyrsta skipti frá því að stríðið braust út sem rússneskir þingmenn tóku þátt í fundum ÖSE-þingsins en Rússland átti hvorki fulltrúa á ársfundi þingsins í Birmingham í júlí 2022 né á haustfundi þess í Varsjá í nóvember sama ár þar sem bresk og pólsk stjórnvöld neituðu að veita þeim vegabréfsáritanir. Á haustfundinum í Varsjá var lögð fram tillaga reglunefndar um breytingar á starfsreglum ÖSE-þingsins þess efnis að víkja mætti aðildarríki af þinginu fyrir gróf brot gegn ákvæðum Helsinki-lokagerðarinnar. Hún kveður á um að aðildarríkin virði landamæri hvers annars og vinni að friði, öryggi, lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. Ekki náðist samstaða um tillöguna. Ólíkt breskum og pólskum stjórnvöldum er austurrískum stjórnendum lagalega skylt að veita sendinefndum aðildarríkja ÖSE og annarra alþjóðlegra stofnana sem staðsettar eru í Vín vegabréfsáritanir til landsins og því var ekki hægt að meina rússnesku landsdeildinni þátttöku á vetrarfundinum í febrúar 2023 með sama hætti og áður. Í ljósi þessa ákvað úkraínskan landsdeildin að sniðganga fundinn en þingmenn hennar komu þó til Vínar og tóku þátt í óformlegum fundum og viðburðum á jaðri vetrarfundarins. Þingmenn annarra ríkja en Rússlands kepptust við að fordæma innrás og stríðsglæpi Rússlands harðlega á sameiginlegum fundi og fundum í málefnanefndum. Þá voru fánar Úkraínu áberandi í fundarsölum og þegar fulltrúar Rússlands og Belarús tóku til máls gekk stór hluti þátttakenda á dyr.

Á ársfundi ÖSE-þingsins í Vancouver um mánaðamótin júní/júlí var stríðið í Úkraínu enn í forgrunni. Endurskoðaðar tillögur reglunefndar um breytingar á starfsreglum ÖSE-þingsins voru lagðar fyrir ársfundinn en aðeins voru teknar til umræðu tillögur um aukið kynjajafnrétti og þær samþykktar. Áfram náðist ekki samstaða varðandi skilyrði til brottvísunar aðildarríkja af ÖSE-þinginu og er staða Rússlands því óbreytt innan þingsins. Áhrif árásarstríðsins á starfsemi ÖSE voru einnig áberandi í umræðum á ársfundinum og deildu þingmenn m.a. áhyggjum sínum af fjármögnun starfseminnar í ljósi þess að Rússland stæði í vegi fyrir samþykkt fjárhagsáætlunar fyrir næsta starfsár. Að auki bæru níu aðildarríkja ÖSE hitann og þungann af heildarkostnaði og Rússland væri þeirra á meðal með um 6% af heildarfjármagni stofnunarinnar en stjórnvöld höfðu stöðvað greiðslur til stofnunarinnar. Þingmenn höfðu einnig áhyggjur af yfirlýsingum Rússlands um að stjórnvöld þar í landi myndu beita sér gegn því að Eistland tæki við formennsku í ÖSE af Norður-Makedóníu í ársbyrjun 2024 og kæmu jafnframt í veg fyrir að hægt yrði að skipa í lykilstöður innan ÖSE, þar á meðal í stöðu framkvæmdastjóra Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE, ODHIR. Á fundinum var stofnaður sérstakur starfshópur um málefni Úkraínu sem er ætlað að tryggja að ólöglegt árásarstríð Rússlands verði áfram í brennidepli í allri starfsemi þingsins. Þá var einnig samþykkt ályktun þess efnis að framvegis yrðu fundir ÖSE-þingsins utan vetrarfundar í Vín ekki haldnir í ríkjum sem hefði í hyggju að veita fulltrúum Rússlands vegabréfsáritanir. Í lok ársfundar var Pia Kauma frá Finnlandi kjörin nýr forseti ÖSE-þingsins.

Á haustfundi ÖSE-þingsins í Jerevan í Armeníu sem undirrituð sótti voru áskoranir ÖSE áfram í brennidepli ásamt umræðu um árásarstríð Rússlands í Úkraínu, en Rússland ákváð að senda ekki fulltrúa sinn á fundinn. Hið sama var uppi á teningnum hjá sendinefnd Aserbaídsjan en hún sendi frá sér yfirlýsingu í aðdraganda fundar þar sem því var lýst að þau gætu ekki tekið þátt þar sem þau mátu það sem svo að ekki yrði unnt að tryggja öryggi þeirra í Armeníu. Umræða um samskipti Armeníu og Aserbaídsjan var mjög fyrirferðarmikil á fundinum og árás Aserbaídsjan á héraðið Nagornó-Karabak sem og neyðarástandið sem skapaðist í mannúðarmálum þegar 100.000 manns af armenskum uppruna þurftu að flýja svæðið yfir landamærin til Armeníu. Þá voru átökin fyrir botni Miðjarðarhafs einnig mjög áberandi í umræðunni og kom samstarfsvettvangur um málefni ríkja fyrir botni Miðjarðarhafs saman í tengslum við fundinn. Aðilar að honum eru Túnis, Alsír, Marokkó, Ísrael, Jórdanía og Egyptaland auk aðildarríkja ÖSE-þingsins. Á haustfundinum fóru einnig fram sérstakar umræður um spillingu sem grundvallarógn við frið og öryggi og um verndun minnihlutahópa og fórnarlamba afleiðinga átaka.

Íslandsdeild ÖSE-þingsins tók á móti tveimur fulltrúum ÖSE-þingsins hér á landi á árinu. Margareta Cederfelt, forseti ÖSE-þingsins, sótti Ísland heim í apríl og átti við það tilefni fund með fulltrúum deildarinnar um starfsemi og rekstur ÖSE-þingsins, árásarstríð Rússlands í Úkraínu og áhrif þess á hlutverk og starfsemi ÖSE. Þá áttu fulltrúar Íslandsdeildar einnig fund með Mark Pritchard, sérstökum fulltrúa ÖSE-þingsins í málefnum norðurslóða, en hann var hér á landi dagana 6.–8. nóvember til að kynna sér ýmis málefni norðurslóða, svo sem öryggismál, rannsóknir, leit og björgun, sem og auðlindastýringu.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir gegndi stöðu varaformanns tengslanets ungra þingmanna á ÖSE-þinginu og Birgir Þórarinsson stýrði samráðsfundi formanna og varaformanna landsdeildar Norðurlanda og Eystrasaltslanda á ÖSE-þinginu sem fram fór í Vancouver við upphaf ársfundar ÖSE-þingsins, auk þess sem Lilja Rannveig sótti fund tengslanetsins í Tírana í Albaníu síðastliðið ár.

Auk hefðbundinna funda Íslandsdeildar tóku fulltrúar Íslandsdeildar einnig þátt í nokkrum netfundum á árinu, bæði á vegum ÖSE-þingsins en eins að frumkvæði formanna lettnesku og litháensku landsdeildanna þar sem málefni á borð við jafnréttismál, framtíðarkynslóðir, öryggismál og áhrif árásarstríðs Rússlands á starfsemi ÖSE og aðrar alþjóðastofnanir voru rædd.

Virðulegur forseti. Ég hef nú rakið í stuttu máli starfsemi Íslandsdeildar ÖSE-þingsins en vil að öðru leyti vísa til ársskýrslunnar í heild sem er aðgengileg á vef Alþingis.