154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Alþjóðaþingmannasambandið 2023.

631. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. ÍAÞ (Hildur Sverrisdóttir) (S):

Herra forseti. Ársskýrsla Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins, IPU, liggur fyrir á þskj. 941, mál 631, og mun ég í stuttu máli gefa þingheimi kynningu á helstu málum í brennidepli innan sambandsins á liðnu ári. Ársskýrsla Íslandsdeildar fyrir árið 2023 gerir störfum þingmannanefndarinnar ítarleg skil auk skipan Íslandsdeildar. Ég mun því aðeins stikla á stóru hér en vísa að öðru leyti í skýrsluna sem mælt er fyrir.

Aðild að IPU, sem er erlend skammstöfun fyrir Alþjóðaþingmannasambandið, áttu í lok árs 2023 180 þjóðþing en aukaaðild að sambandinu fjórtán svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið sambandsins er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi þjóða og treysta í sessi lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi sem eins af grundvallarþáttum lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. IPU heldur tvö þing á ári auk þess heldur sambandið alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur, oftast um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Í upphafi ársins 2023 áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild: Sú sem hér stendur, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokks, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varaformaður, þingflokki Miðflokks, og Jóhann Friðrik Friðriksson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Bergþór Ólason, þingflokki Miðflokks, og Þórarinn Ingi Pétursson, þingflokki Framsóknarflokks. Á þingfundi 26. september var sú breyting gerð að Þórunn Sveinbjarnardóttir, úr þingflokki Samfylkingar, tók sæti Sigmundar Davíðs sem aðalmaður og Dagbjört Hákonardóttir, þingflokki Samfylkingar, sæti Bergþórs sem varamaður í Íslandsdeild.

Herra forseti. Af þeim fjölmörgu málum sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins á árinu 2023 vil ég leggja áherslu á nokkur atriði. Þar bar hæst umræðu um alvarlegt ástand mannúðarmála, innrás Rússlands í Úkraínu, friðsamlega sambúð og samfélög án aðgreiningar og áhrif loftslagsbreytinga.

Á vorþingi IPU í mars var samþykkt neyðarályktun sem beindi sjónum sínum að því hvernig auka mætti vitund og kalla eftir aðgerðum vegna alvarlegs ástands mannúðarmála sem hefur áhrif á íbúa Afganistans, Sýrlands, Úkraínu, Jemens og annarra landa, með áherslu á varnarleysi kvenna og barna. Í ályktuninni er alþjóðasamfélagið hvatt til þess að vinna saman að því að vernda mannslíf, lina þjáningar og tryggja öllum einstaklingum aðgang að grunnþjónustu, svo sem fæði, læknishjálp, vatni og húsaskjóli, óháð uppruna þeirra. Jafnframt fundaði starfshópur IPU um friðsamlega lausn stríðsins í Úkraínu með háttsettum sendinefndum þingmanna bæði frá Rússlandi og Úkraínu, hvorri í sínu lagi, með það fyrir augum að halda diplómatískum leiðum þingsins opnum fyrir friðaruppbyggingu í framtíðinni. Viðvarandi valdbeiting Rússa gegn Úkraínu var fordæmd sem brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal meginreglunni um fullveldi og landhelgi. Þá lýstu þingmenn ítrekað yfir áhyggjum af því að stríðið í Úkraínu ógnaði alþjóðaöryggi og ylli efnahagslegri óvissu. Einnig fór fram almenn umræða um það hvernig stuðla mætti að friðsamlegri sambúð og samfélögum án aðgreiningar og um baráttuna gegn umburðarleysi. Í yfirlýsingu þingsins eru þingmenn hvattir til að innleiða heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030 og þau sögð besta vonin um frið, lýðræði og sjálfbæra þróun fyrir alla. Yfirlýsingin kallar eftir umburðarlyndari heimi þar sem fjölbreytileika er fagnað og sérhver manneskja er viðurkennd fyrir framlag sitt til samfélagsins.

Baráttan gegn loftslagsbreytingum var jafnframt áhersluatriði á árinu og stóðu IPU og Sameinuðu þjóðirnar fyrir árlegum fundi þar sem sjónum var beint að sjötta heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu. Umræða um auknar öfgar í veðri vegna loftslagsbreytinga, sem hafa leitt til aukinnar tíðni þurrka og flóða, var í brennidepli en breytingar á veðurfari hafa haft neikvæð áhrif á vatns- og hreinlætisþjónustu sem síðan hefur skaðleg áhrif á þróun og heilsu. Jafnframt hleypti IPU af stokkunum nýrri herferð, „Parliaments for the Planet“, sem er ætlað að virkja þing og þingmenn til að bregðast við neyðarástandi í loftslagsmálum. Með herferðinni eru þjóðþing hvött til að sýna fordæmi, draga úr eigin kolefnisfótspori og grípa til raunhæfra aðgerða til að takmarka hnattræna hlýnun við 1,5°C.

Á árinu voru einnig haldnir fundir þingkvenna þar sem var m.a. rætt um jafnréttismiðuð þjóðþing, kynjamisrétti og ofbeldi gegn konum. Enn fremur var samþykkt yfirlýsing þar sem aðildarríki IPU eru hvött til þess að stuðla að jafnrétti kynjanna á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Einnig fór fram umræða um það hvernig efla mætti traust milli fólks og stjórnkerfa og gera opinberar stofnanir skilvirkari og ábyrgari. Þá var samþykkt ályktun um hlutverk þjóðþinga í baráttunni gegn mansali á munaðarleysingjum.

Af öðrum stórum málum sem voru tekin til umfjöllunar á fundum IPU á árinu má nefna netárásir og áhættuna sem af þeim stafar fyrir alþjóðlegt öryggi, málefni fólksflutninga og flóttafólks með áherslu á leiðir til að stöðva mansal og mannréttindabrot. Herra forseti. Það er mikil áhersla lögð á mannréttindamál í starfi IPU. Í því samhengi vil ég nefna sérstaka nefnd um mannréttindi þingmanna sem gegnir veigamiklu hlutverki innan IPU og gefur út viðamikla skýrslu fyrir hvert þing. Á grundvelli skýrslunnar samþykkir ráðið fjölmargar ályktanir um mannréttindabrot gegn þingmönnum. Nefndin vinnur mikið starf á milli þinga þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall.

Þá vil ég nefna þá miklu áherslu sem Alþjóðaþingmannasambandið leggur á að styrkja hlut kvenna í stjórnmálum með ráðstefnum, fundum og útgáfu handbóka og skýrslna svo og með ýmsum formlegum og óformlegum hætti. Jafnframt hefur árleg samantekt samtakanna á stöðu kvenna í þjóðþingum heims vakið athygli og er iðulega vitnað til hennar í umræðum og í fjölmiðlum.

Þá er norrænt samstarf mjög sterkt innan IPU og eru norrænu landsdeildirnar almennt mjög virkar í starfi sambandsins. Norrænu landsdeildirnar halda samráðsfund til undirbúnings fyrir hvert IPU-þing og fór Svíþjóð með formennsku í hópnum árið 2023.

Það er ljóst að fjölbreytt verkefni bíða IPU á árinu 2024 og ber þar helst að nefna umræðu um áskoranir samtímans fyrir lýðræði, hvernig stuðla megi að friðsamlegri samfélögum og baráttuna gegn loftslagsbreytingum.

Eins og áður sagði er gerð grein fyrir því sem fram fór á fundum nefndarinnar í fylgiskjölum skýrslu þeirrar sem hér er mælt fyrir og vísa ég til hennar varðandi frekari upplýsingar um störf nefndarinnar.

Ég vil að lokum þakka Íslandsdeild gott samstarf á þessum mikilvæga vettvangi og læt að svo mæltu lokið umfjöllun minni um skýrslu Íslandsdeildar IPU fyrir árið 2023.