154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

breytingar á lögum um mannanöfn.

533. mál
[18:31]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ráðherra getur ekki annað en fagnað þeim frelsishugmyndum sem komu hér frá hv. þingmanni varðandi þetta mál. Það þekkja það náttúrlega allir að ég tilheyri miklum frelsisflokki sem styður mjög rétt einstaklinga til að velja sér nafn. Ef það frelsi er ekki við lýði, hvað þá? Og þar með talið við upphaf lífs, þegar nýju lífi er gefið nafn, að fólk fái ekki að ráða því hvaða nafn viðkomandi ber. Svo þegar sá einstaklingur er kannski í framhaldinu ósáttur við það nafn sem foreldri hefur gefið viðkomandi, þá getur hann ekki skipt um nafn en ég þekki persónulega til þess að foreldrar breyttu nafni barns síns og síðan vildi barnið breyta þessu nafni og það var ekki hægt því að foreldrarnir höfðu breytt nafninu frá því að það var fyrst gefið. Sjálfstæðisflokkurinn styður af öllu hjarta allar þær hugmyndir sem gera einstaklingum kleift að ráða lífi sínu sjálfir.(Gripið fram í: Heyr, heyr.)